Öryggi gangandi vegfarenda á Djúpavogi bætt með nýjum stígum

Gangskör hefur verið gerð í sumar í að auka öryggi gangandi vegfarenda á Djúpavogi. Búið er að leggja göngustíg frá Löngubúð inn í Gleðivík og frá leikskólanum að íþróttamiðstöðinni.

Búið er að leggja nýja malbikaða göngustíga á báðum leiðunum. Göngustígurinn frá skólanum að íþróttahúsinu er fullgerður en enn er verið að klára fyrri stíginn enda töluvert lengri.

Í sumar var malbikað frá Löngubúið út að listaverkinu Eggin í Gleðivík. Göngustígurinn liggur meðfram Víkurlandi og virðist vel nýttur að sögn Hugrúnar Hjálmarsdóttur, framkvæmda- og umhverfismálastjóra Múlaþings.

Lokahnykkurinn á framkvæmdunum verður að steypa gangstéttir við annars vegar Löngubúð, hins vegar Eggin. Það verður gert á næstu dögum. Færa þurfti þrjú egg lítillega vegna framkvæmdanna.

Með framkvæmdunum hefur verið bætt verulega úr öryggismálum í Gleðivík, en þar varð banaslys sumarið 2022. Erlendur ferðamaður lést eftir að hafa orðið fyrir lyftara á ferð með fiskikör úr báti sem var að landa í Gleðivík.

Í skýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa um banaslysið í Gleðvík var því beint til sveitarfélagsins að greina betur milli akandi og gangandi umferðar á svæðinu. Um tíma var áformað að færa Eggin úr víkinni en frá því var horfið. Síðan hafa verið gerðar ráðstafaanir til að greina á milli umferðar og auka öryggi í Gleðivík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.