Okkar samfélag: Áminning til okkar um það sem vel er gert
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. ágú 2012 11:39 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs segir atvinnulífssýninguna Okkar samfélag, sem sett var í Egilsstaðaskóla í morgun, ekki síst vera áminningu til íbúa á svæðinu um það sem vel er gert í samfélaginu.
„Okkur hættir til að sjá ekki það sem vel er gert í okkar eigin ranni. Því er þessi sýning ekki síst fyrir okkur sjálf til að sýna okkur hvaða sprotar eru að vaxa. Eins er þetta hvatning til hugmyndaríkra einstaklinga að fara af stað,” sagði Björn í setningarræðu sinni í morgun.
Um áttatíu austfirsk fyrirtæki taka þátt í sýningunni. Bæði Björn og Gunnar Þór Sigbjörnsson, formaður atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs minntust á þær hindranir sem staðið hefðu í veginum, einkum kostnað á erfiðum tíma í rekstri sveitarfélagsins.
Það hafi þó allt leyst farsællega og sagðist Gunnar „klökkur“ yfir því hversu vel hefði tekist til þegar hann horfði yfir hátíðarsal skólans í morgun.