Olís í endurbætur fyrir jólin
„Þjónustustöð Olís mun verða áfram í Fellabæ. Nýir eldsneytistankar eru væntanlegir til landsins í desember og áætlað er að framkvæmdir við nýtt áfyllingarplan hefjist innan fárra vikna,“ segir Örn Franzson, tæknifræðingur á framkvæmdasviði Olís.Eins og fram kemur í frétt hér á austurfrett.is hefur Heilbrigðiseftirlit Austurlands, HAUST, veitt Olís frest til 15. desember til að ljúka endurbótum á svokölluðu áfyllingarplani, sem í þessu tilfelli er malarplan, en ætti reglum samkvæmt að vera steypt og með viðeigandi niðurföllum svo ekki sé hætta á að bensín og olía leki út í jarðveginn ef óhapp verður. Ennfremur eru eldsneytistankar í jörðu komnir á tíma. HAUST hefur hótað Olís dagsektum ef endurbótum verður ekki lokið fyrir tilskyldan tíma.
Kvittur hefur verið uppi um að Olís hafi dregið lappirnar við endurbætur á áfyllingarplani stöðvarinnar vegna óvissu um framtíð núverandi brúar yfir Lagarfljót og þá í framhaldi að vegurinn verði færður. Viðgerð á núverandi brú er hins vegar komin á samgönguáætlun og ljóst að nýtt vegarstæði er ekki á dagskrá í nánustu framtíð.
„Þetta hefur vissulega verið óvissuþáttur, en nú er hann úr sögunni, í bili að minnsta kosti,“ segir Örn. „Endurbætur á áfyllingarplaninu hafa því miður dregist, en nú sér fyrir endann á því. Það er verið að ljúka við hönnun nýrra eldsneytislagna við stöðina. Við munum færa tankana í jörðu eitthvað til, en dælurnar verða á sama stað. Nýjir tankar eru væntanlegir til landsins í desember, þannig að framkvæmdir ættu að geta hafist innan fárra vikna,“ segir Örn Franzson og samkvæmt því má gera ráð fyrir að framkvæmdir við endurbætur verði hafnar á þjónustustöð Olís í Fellabæ fyrir jól.