Ómengað vatn í kranana í Hallormsstað fyrir mánaðarmót

Íbúar og gestir Hallormsstaðar mega eiga von á að geta neytt vatns vandræðalaust beint úr krananum eigi síðar en frá og með næstu mánaðarmótum samkvæmt áætlunum HEF-veitna.

Eins og greint hefur verið frá hér greindust kólígerlar í neysluvatni staðarins fyrir tæpum mánuði síðan en frá þeim tíma hefur fólki verið ráðlagt að sjóða allt vatn til neyslu. Það þarf áfram að gera langleiðina fram til mánaðarmóta þegar HEF-veitur eiga von á því að nauðsynlegum lagfæringum verði lokið og nýjum tækjabúnaði komið fyrir. Framkvæmdir munu að óbreyttu hefjast fyrir helgi.

Heimafólk má búast við truflunum á afhendingu vatns meðan framkvæmdir standa yfir en íbúar geta skráð símanúmer sitt hjá vatnsveitunni og fengið öll nauðsynleg skilaboð vegna þessa umsvifalaust í símann. Vonir standa til að allt verði klappað og klárt orðið í lok mánaðarins en hreint og ómengað vatn gæti farið að renna í krana íbúa vel fyrir mánaðarmótin.

Kólígerlamengun í vatnsbóli Hallormsstaðar reyndist flóknara viðfangsefni en í upphafi var talið en nú sér fyrir endann á vandamálinu. Mynd Visit Austurland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar