Opna ábendingargátt fyrir íbúa Múlaþings
Nýopnuð ábendingargátt á vef Múlaþings skal eftirleiðis auðvelda íbúum sveitarfélagsins til muna að koma hvers kyns ábendingum á framfæri við svið,ráð og stjórnir sveitarfélagsins.
Upp og niður hefur verið hingað til hvernig íbúar hafa komið ábendingum til sveitarstjórnaraðila á framfæri. Hægt hefur verið að gera það í eigin persónu á sveitarstjórnarskrifstofunum, með bréfaskrifum, innhringingum, tilkynnt um hlutina í íbúahópum á samfélagsmiðlum ellegar hitta sveitarstjórnarfólk á íbúafundum sem haldnir eru annars lagið.
Gáttin einfaldar og auðveldar ferlið verulega og engu skiptir hvers kyns ábendingum fólk kýs að koma þar á framfæri. Allar fara þær á sinn rétta stað í kerfinu fljótt og örugglega hvort sem það tengist umhverfinu, þjónustu sveitarfélagsins eða öðru því sem íbúum er umhugað um í nærumhverfi sínu. Eina undantekningin á þessu eru tilkynningar til barnaverndar Múlaþings sem fara skulu aðra boðleið.
Í gáttinni getur fólk hvort sem er sent ábendingu nafnlaust eða gefið upp nöfn sín og þannig fengið svarskeyti með upplýsingum um framvindu hvers máls. Þar einnig hægt að senda myndir og á kortagrunni gáttarinnar merkt inn sérstaklega staðsetningu ef um slíkt er að ræða. Gáttina má finna hér.
Eitthvað í nærumhverfinu sem færa má til betri vegar? Þá er nú skilvirk leið til að koma því á framfæri. Mynd Ómar Bogason