Opnað fyrir skráningu í skimanir
Opnað hefur verið fyrir skráningu í skimanir vegna covid-19 veirunni á Austurlandi. Skimað verður á Reyðarfirði og Egilsstöðum á laugardag og sunnudag.Á Egilsstöðum fer sýnatakan fram í Samfélagsmiðjunni, áður Blómabæ og Fóðurblöndunni að Miðvangi 31.
Á Reyðarfirði verður hún í Molanum, Hafnargötu 2. Gengið er inn frá bílastæði hægra megin við aðalinngang, gegnt Sesam brauðhúsi.
Fyrirkomulagið verður þannig að fólk gengur inn í húsin á einum stað og út á öðrum.
Bókunin fer fram í gegnum sérstakan vef. Slóðin fyrir Egilsstaði er bokun.rannsokn.is/q/egils en fyrir Reyðarfjörð bokun.rannsokn.is/q/reydisfj
Þar getur fólk séð hvaða tímar eru lausir og valið þá.
Að lokinni skimun verður svar einstaklings birt á vefnum heilsuvera.is. Hringt verður í alla sem greinast jákvæði.
Skimunin er í samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Markmið rannsóknarinnar er að kanna útbreiðslu veirunnar í samfélaginu. „Ég vil hvetja alla Austfirðinga sem geta til að skrá sig og leggja þessari rannsókn lið,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri stofnunarinnar.