„Óraði ekki fyrir þessum umsvifum“

„Það er bara alveg brjálað að gera hérna á Borgarfirði, bæði í viðhaldi eldri húsa og nýrra verkefna,“ segir Björn Kristjánsson, húsasmíðameistari og hönnuður, en auglýsing frá honum birtist á heimasíðunni Borgafjörður eystri og auglýsir hann þar eftir starfskröftum í smíðavinnu.



Í auglýsingunni óskar Björn eftir nemum eða sveinum í húsasmíði en allt eins ófaglærðum sem hafa reynslu af smíðum eða áhuga á að læra. „Já, það skiptir ekki nokkru máli, menn þurfa bara að hafa gaman af því að vinna,“ sagði Björn í samtali við Austurfrétt.

Þar segir einnig; Verkefnin sem liggja fyrir eru fjölbreytt og í framtíðinni er einnig allt eins von á vinnu við örlítið framúrstefnulegri verkefni svo sem vistvæna húsasmíði, tilraunasmíði úr íslensku timbri, bindingsverk og svo vastu húsasmíði sem felur í sér hönnun í samhljómandi stærðum.


Hugsanlegar húsbyggingar

Björn er nýfluttur á Borgarfjörð ásamt fjöskyldu sinni, en kona hans, María Ásmundsdóttir Shanko, tók við starfi skólastjóra grunnskólans í haust.

„Ég vissi að verkefnin væru næg en óraði ekki fyrir því að að ég þyrfti að fá með mér fólk. Vel getur verið að húsbyggingar séu að fara af stað, í það minnsta er ég að teikna hús fyrir okkur fjölskylduna.“


Rólegt og þægilegt

Ráðning hefur væntanlega í för með sér búferlaflutning á Borgarfjörð þar sem lóðir eru fríar, sem og leikskóli og grunnskóli – en hér má kynna sér allt um staðinn.

Björn segir fjölskylduna vera ánægða með ákvörðun sína að flytja austur. „Þetta leggst afskaplega vel í okkur, hér er allt svo rólegt og þægilegt. Fyrir okkur að koma úr vesturbæ Reykjavíkur er mikill kostur að sleppa alfarið við umferðarteppur, stöðumælasektir og langar raðir.“

Hér má skoða heimasíðu Borgarfjarðar og auglýsingu Björns Kristjánssonar. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.