Þorkell hættur hjá Austurbrú eftir aðeins þrjá mánuði í starfi
Þorkell Pálsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Austurbrúar eftir aðeins þrjá mánuði í starfi. Í tilkynningu segir að samkomulag hafi orðið milli hans og stjórnar um að nýr aðili leiði stofnunina næstu skrefin. Í lok júní sendu starfsmenn stofnunarinnar stjórninni bréf og kvörtuðu undan störfum Þorkels.
Þorkell var ekki meðal þeirra sem sóttu um starfið í upphafi en kom inn síðar í ferlinu í gegnu ráðningarskrifstofuna sem hélt utan um það. Hann tók til starfa í byrjun apríl, stofnfundur Austurbrúar var í maí og stofnunin tók til starfa 1. júní.
Stofnunin heldur utan um starfsemi fyrrum stoðstofnanna Austurlands: Þekkingarnetið, Þróunarfélagið, Markaðsstofuna og Menningaráð Austurlands. Dagleg starfsemi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) færðist einnig inn í Austurbrú.
Í lok júní birti vikublaðið Austurglugginn frétt um óeiningu innan stofnunarinnar. Tveir af fyrrum forstöðumönnum stoðstofnananna fóru í önnur störf áður en Þorkell tók til starfa. Fleiri starfsmenn munu hafa helst úr lestinni síðan og enn aðrir viðrað óánægju með hægagang og lélegt upplýsingaflæði.
Misjafnt var þó hvort menn skelltu skuldinni á Þorkel eða vaxtaverki þar sem skipulagsferlið hefði ekki verið klárað þegar Þorkell kom til starfa. Hluti starfsmanna sendi stjórn Austurbrúar yfirlýsingu í lok júní þar sem áhyggju var lýst yfir „innri vinnu stofnunarinnar.“ Í frétt Austurgluggans segir að stjórnin hafi brugðist strax við með að funda með Þorkeli og setja af stað vinnuferli til að greiða úr óánægjunu.
Í morgun sendi stjórnin frá sér yfirlýsingu, sem reyndar er dagsett í gær, um að náðst hefði „samkomulag milli aðila um starfslok framkvæmdastjórans og hefur hann þegar lokið störfum.“ Þau eru sögð gerð í „fullu samkomulagi“ og af þeim verði „engir eftirmálar.“
Þorkeli eru þökkuð vel unnin störf og reynsla hans sögð hafa verið mikilvæg við að koma stofnuninni á fót. Sagt er að sameiningu sem þessari fylgi jafnan „flókin úrlausnarefni, ekki síst í starfsmannamálum.“
„Flest hefur gengið eftir áætlun síðustu mánuði og stofnsetning Austurbrúar er afstaðin undir stjórn fráfarandi framkvæmdastjóra. En það var sameiginleg niðurstaða stjórnar og framkvæmdastjóra að rétt sé að nýr stjórnandi myndi leiða stofnunina næstu skrefin.
Stjórn Austurbrúar leggur áherslu á að viðhalda fullum trúnaði og trausti allra starfsmanna og hagsmunaaðila er tengjast stofnuninni og mun sjá til þess að sameiningin skili tilætluðum árangri. Áfram verður unnið af fullum krafti að uppbyggingu Austurbrúar og mun stjórn og starfsfólk skipta með sér verkum og ábyrgð þangað til aftur hefur verið ráðið í starf framkvæmdastjóra.“