Ósátt við þjónustu flugfélagsins
María Óskarsdóttir frá Fáskrúðsfirði er ein þeirra sem átti bókað flug frá Egilsstöðum til Reykjarvíkur í gær en tvær af þremur vélum dagsins voru felldar niður eftir að bilun kom í ljós þegar miðdegisvélin átti að fara frá Egilsstöðum. María, eiginmaður hennar og tengdamóðir eiga bókað flug til Danmerkur í dag og þurftu að keyra suður í nótt eftir að hafa beðið í óvissu fram eftir degi í gær.
„Við áttum flug suður klukkan 15:50 í gær, það var sú vél sem bilaði. Við fengum fyrstu fréttir rúmlega fjögur um að það væri einhver bilun í gangi og svo um hálf sex var okkur sagt að vélin væri ekkert að fara í loftið. Þá var náttúrulega farið að skoða hvað væri í stöðunni. Við biðum í röð í einhvern tíma og fengum svo að vita að við gætum farið í flug klukkan níu í morgun. Það hefði passað, við hefðum alveg náð til Keflavíkur svoleiðis,“ segir María.
Eftir að hafa verið bókuð í morgunflug suður fengu ferðafélagarnir sér að borða í rólegheitum á Egilsstöðum og lögðu svo af stað heim aftur. „Klukkan var rúmlega hálf átta og við stödd uppá miðjum Fagradal þegar ég fékk skilaboð í símann um að ég ætti flug klukkan 12:10. Það hefði enganvegin gengið upp vegna flugsins til Danmerkur.
Við hringdum strax í flugfélagið og þá var semsagt búið að flytja mig í hádegisvélina en maðurinn minn og tengdamóðir voru ennþá í morgunvélinni. Samt vorum við öll í sömu bókun. Það var þá búið að plokka mig út úr bókuninni og skella mér í aðra vél. Sem hefði auðvitað orðið til þess að ég næði ekki hinu fluginu,“ segir María.
Úr varð að þau keyrðu suður í nótt og voru þangað komin um hálf fjögur í morgun. „Ég er alls ekki sátt við það að það sé hægt að taka einn útúr bókun og setja í aðra vél. Við sögðum það strax í afgreiðslunni á Egilsstöðum að við þyrftum að ná þessu flugi út og ef að við værum trygg að komast með fyrstu vél þá myndum við þiggja það, annars þyrftum við að gera aðrar ráðstafanir. Okkur var sagt að við fengjum sæti í morgunvélinni, annars hefðum þá getað lagt af stað strax um sex leytið.“
María segist vita um fleiri sem þurftu að keyra til Reykjavíkur og aðra sem hreinlega misstu af fundum eða öðrum bókuðum tímum fyrir sunnan. „Mér finnst svo skrítið að flugið í gærkvöldi hafi þurft að falla niður líka útaf einni bilaðri vél og að það hafi þá ekki sett inn aukavél fyrr. Auðvitað geta vélar bilað en þetta er mikil röskun. Ég var eiginlega ósáttust með það að vera komin með sæti í morgunvélinni en vera svo kippt útúr því aftur.“
Samkvæmt upplýsingum frá Air Iceland Connect átti sama flugvél og áhöfn að fljúga bæði miðdegisflugið og kvöldflugið í gær. Þar sem áhöfnin og vélin voru föst eystra var kvöldflugið fellt niður.