Óttast að lokanir á veiðisvæðum stórskaði útgerð á Borgarfirði

Smábátasjómenn og hreppsnefnd á Borgarfirði eystra hafa áhyggjum af áhrifum tímabundins banns við handfæraveiðum úti við Glettinganes á sumrin. Trillusjómenn kalla eftir að þeim verði bættur skaðinn ef bannið gengur í gildi. Hreppsnefndin segir enn frekar sparkað í byggð í vanda.

Sjávarútvegsráðherra lagði nýverið fram drög að reglugerð reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð sem á að gilda til ársins 2021.

Samkvæmt drögunum verða veiðar bannaðar á sex veiðisvæðum við Glettinganes á tímabilinu frá 15. maí 31. maí.

Í umsögn hreppsnefndar er bent á að á þetta svæði sé sótt fyrri hluta sumars, akkúrat þann tíma sem bannið gildir. Strandveiðar á þessu tímabili og þessum svæðum, sem og aðrar handfæraveiðar, skipta verumáli fyrir atvinnulíf staðarins.

Varað er við að ef af lokuninni verði dragi verulega úr afla á Borgarfirði. Þar sé byggðakvóti þegar einungis um þriðjungur þess sem var fyrir örfáum árum. Við bætist að staðurinn er skilgreindur sem brothætt byggð með viðvarandi fólksfækkun. „Aðgerðir stjórnvalda virðast því enn snúast um að stinga skottinu uppí hundinn,“ segir í umsögn hreppsnefndar.

Í umsögn Ólafs Hallgrímssonar, fyrir hönd trillusjómanna á Borgarfirði, er farið fram á að ef farið verði eftir tillögum starfshóps ráðherrans verði að koma á móts við útgerð trillubáta á Borgarfirði.

Í umsögninni segir að aldurssamsetning afla á handfæri á svæðinu hafi aldrei verið rannsakaður, né stærðarsamsetning afla af svæðinu könnuð nýlega. Því eigi að falla frá lokuninni.

Í báðum umsögnum er bent á að togveiðar séu leyfðar allt inn að sex sjómílur frá landi út af Glettinganesi og Borgarfirði. Þegar togarar séu að veiðum á svæðinu fáist þar nær enginn afli, hvorki á handfæri né línu.

Einungis verði 3-4 sjómílna ræma á milli fyrirhugaðs bannsvæðis og að mörkunum þar sem togveiðarnar eru leyfðar. Einnig megi ætla að fiskur veiddi utan svæðisins minnki göngu stærri fisks upp á umrætt svæði.

Þess vegna er farið þess á leit að svæðið frá sex út að tólf sjómílum frá landi úti fyrir Glettinganess og norður á Héraðsflóa verði lokað fyrir togveiðum allt árið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar