Óvenju kalt austanlands þriðja mánuðinn í röð
Þriðja mánuðinn í röð reyndist meðalhitastig á Austurlandi töluvert lægra en verið hefur síðustu ár og áratugi. Október í kaldara lagi um land allt en óvenju hægviðrasamur á móti.
Þetta má lesa út úr tíðarfarstölum Veðurstofu Íslands fyrir októbermánuð en þar kemur í ljós að Vattarnes státaði af hæsta meðalhita þess mánaðar í fjórðungum en þó einungis 4,09 stig.
Á Dalatanga reyndist meðalhiti 3,9 stig og 3,7 að Teigarhorni eða um tveimur stigum lægri hiti en verið hefur reglan síðustu tíu árin. Enn kaldara reyndist á Héraði. Meðalhiti á Egilsstöðum náði aðeins 2,1 stigi sem er 2,2 stigum undir meðaltali síðasta áratugar.
Þrír síðustu mánuðir; ágúst, september og október allir verið töluvert kaldari austanlands en meðaltalstölur allt frá árinu 1991.
Hugsanlega verður annað uppi á teningnum yfirstandandi nóvember en spáð er hita allt að tólf til þrettán stig út þessa vikuna að minnsta kosti.
Vattarnesið í öllu sínu veldi. Þar var hlýjast á Austurlandi í liðnum októbermánuði. Mynd Visit Austurland