Óvenju mikið um hval á Austfjörðum í sumar

Hvalir hafa sést víða á ferð á Austfjörðum í sumar. Íbúi á Borgarfirði segist aldrei hafa séð jafn mikið líf í firðinum. Mikið sé af smáloðnu í sjónum sem virðist laða að sér hvalina og fleiri dýr.

„Ég hef búið við sjóinn í 40 ár og aldrei nokkurn tíma kynnst eins miklu lífi og verið hefur hér síðan um miðjan júlí,“ segir Karl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði eystra.

Fjöldi hvala sást þar í kringum Bræðsluhelgina. Um verslunarmannahelgina bárust Austurfrétt fregnir af hvölum á Reyðarfirði og Seyðisfirði og í byrjun þessarar viku frá Stöðvarfirði. Hvalir sjást líka reglulega á Mjóafirði.

„Í Bræðsluvikunni sáust að minnsta kosti tíu hnúfubakar inni á firði í einu, þar af komu fimm inn undir bryggju. Í síðustu viku kom einn alla leið inn í höfn,“ segir Karl.

Nóg af æti


Hann segir mikla smáloðnu sem er á ferðinni laða hvalina og fleiri dýr að. „Fyrst og fremst virðist þetta vera smáloðna, tveggja ára, svona 2-3 tommur að lengd. Hún hefur verið í svo þykkum torfum inni í höfn að maður sér ekki til botns. Síðan hafa sést sandsíli og trönusíli. Í fiskinum sem við höfum veitt hefur líka verið síld. Þetta hefur verið algjör matarkista og allir saddir á Borgarfirði.

Hvalurinn er í þessu, allar hugsanlegar fuglategundir og þorskurinn. Ég hef fylgst með því þegar makríllinn stingur sér inn í torfurnar.“

Til viðbótar við þetta þá virðist þorskurinn dafna óvenju vel. „Stóri þorskurinn hverfur yfirleitt í október og kemur ekki aftur fyrr en í júlí en nú hvarf hann ekki. Það hefur aldrei gerst áður að við höfum séð stóra fiskinn í maí þótt það þyrfti fyrst að hafa fyrir að veiða hann. Það hefur verið töluvert af þorski yfir 8 kg, en slíkir fiskar eru oft kallaðir kallar.“

Lundinn farinn úr Hafnarhólmanum


Lundinn er hins vegar farinn frá Borgarfirði. „Hann fór að morgni 10. ágúst, sem er óvenju seint. Þeir sem fara út í hólma núna eru heppnir ef þeir sjá fáeina. Það er samt alltaf einn og einn eftir, ef þeir verpa seint þá verða þeir eftir til að hugsa um ungana.“

Karl segir að í sumar hafi lundaungar, sem Borgfirðingar kalla kofur, verið á ferðinni utan við holurnar. „Hér sáust 3-4 kofur úti að leika sér með fullorðna lundanum. Yfirleitt eru þær inni í holu þar til þær fara. Ég hef aldrei séð þær utan við holurnar áður.“

Hnúfubakur í æti á Borgarfirði í sumar. Mynd: Guðrún Ása Jóhannsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar