Fækka kerjum í rekstri vegna skerðingar á raforku
Búist er við að áhrif boðaðra skerðinga á raforku til stórnotenda á Norður- og Austurlandi hafi óveruleg áhrif á framleiðslu álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, þótt viðbúið sé að eitthvað þurfi að draga úr henni.„Við munum fækka kerum í rekstri sem hefur tímabundið áhrif á heildar framleiðslumagnið okkar. Þegar skerðingartímabilinu lýkur munum við ræsa þessi ker aftur," segir Vigdís Diljá Óskarsdóttir, stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli.
Landsvirkjun tilkynnti í byrjun mánaðar að grípa þyrfti til skerðinga á raforku til stórnotenda á Norður- og Austurlandi í samræmi við samninga. Veturinn hefur þurr á svæðinu og því vatnsyfirborð miðlunarlóna lækkað meira en búist var við. Aðgerðirnar eru ætlaðar til að verja vatnsstöðuna í Hálslóni, miðlunarlóni Kárahnjúkavirkjunar sem fæðir álverið, og í Blöndulóni. Gert er ráð fyrir að skerðingarnar standi fram í maí.
Áður hafði verið gripið til sambærilegra ráðstafana á suðvesturhorninu. Þá hafa náttúruhamfarirnar á Reykjanesi aukið álagið á raforkukerfið. Að auki hefur Landsvirkjun heimilað stórnotendum að selja orku sem þeir nota ekki aftur inn á kerfið.