Óvissustigi aflýst

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu, sem lýst var á Austfjörðum á laugardag, var í morgun aflétt alfarið. Þrátt fyrir hættuna hefur enn aðeins eitt snjóflóð verið skráð í gagnagrunn Veðurstofunnar síðustu daga.

Óvissustiginu var lýst um kvöldmat á laugardag og þá gripið til rýmingar húsa í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Rýmingunum var aflétt í gær.

Í gærmorgunn sást snjóflóð sem fallið hafði úr Harðskafa í Eskifirði. Ekki hafa enn sést fleiri snjóflóð en þann fyrirvara verður að hafa að skyggni til fjalla er enn takmarkað.

Síðustu daga hefur snjór safnast hlémegin fjalla undan norðaustanáttinni um helgina, einkum í giljum og lægðum í yfir 400-500 metra hæð.

Þótt snjólétt sé í neðri hluta hlíða eru ofar lagskiptir vindflekar og gamlir djúpir veikleikar efst í fjöllunum. Þótt ólíklegt sé að flóð fari af stað þá geta þau orðið stór. Eins eru líkur á að fólk á ferli í bröttum brekkum eða giljum geti sett af stað snjóflóð. Þess vegna er varað við ferðum til fjalla.

Í dag dregur úr úrkomu og vindi þótt áfram verði einhver él. Á morgun verður austanátt og þurrt að mestu. Ekki er allt búið enn því að á fimmtudag er spáð él með vaxandi vindi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar