Óvissustigi lýst yfir á fjallvegum

Óvissustigi hefur verið lýst yfir á helstu fjallvegum vegna hvassviðris og snjókomu, sem spáð er á Austurlandi þegar líður á daginn.

Óvissustig gekk í gildi á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði klukkan 13:00. Það þýðir að vegunum kann að vera lokað með skömmum fyrirvara. Þeir voru enn opnir um klukkan 15:00.

Þá gengur óvissustig í gildi á vegunum yfir Fjarðarheiði og Fagradal klukkan 17:00 og milli Fagurhólsmýrar og Djúpavogs frá sama tíma.

Ástæðan er mikið norðvestan hvassviðri sem skellur á Austurlandi seinni partinn. Gul viðvörun gildir fyrir Austfirði frá klukkan 16:00 í dag en þá tekur appelsíngul viðvörun strax gildi fyrir Austurland að Glettingi. Appelsínugul viðvörun fyrir Austfirði tekur gildi klukkan 20:00 í kvöld.

Von er á norðvestan með snjókomu, 20-28 m/s og sterkari hviðum. Veðurstofan segir ekkert ferðaveður meðan stormurinn gengur yfir. Í fyrramálið lægir og gular viðvaranir taka við fram yfir hádegi.

Vegagerðin hefur einnig varað við að veðrið komu á sama tíma og stórstreymt sé við landið. Eigendur báta og skipa þurfa að tryggja þau og líkur eru á að álag verið á sjóvarnir, jafnvel að sjór fari yfir þær. Þess vegna þurfi að fara með gát í kringum þær.

Í yfirliti Vegagerðarinnar kemur einnig fram að vetrarblæðinga hafi orðið vart milli Reyðarfjarðar og Streitis auk þess sem hreindýr hafi sést á Fjarðarheiði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.