Óvissustigi lýst yfir á fjallvegum
Óvissustigi hefur verið lýst yfir á helstu fjallvegum vegna hvassviðris og snjókomu, sem spáð er á Austurlandi þegar líður á daginn.Óvissustig gekk í gildi á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði klukkan 13:00. Það þýðir að vegunum kann að vera lokað með skömmum fyrirvara. Þeir voru enn opnir um klukkan 15:00.
Þá gengur óvissustig í gildi á vegunum yfir Fjarðarheiði og Fagradal klukkan 17:00 og milli Fagurhólsmýrar og Djúpavogs frá sama tíma.
Ástæðan er mikið norðvestan hvassviðri sem skellur á Austurlandi seinni partinn. Gul viðvörun gildir fyrir Austfirði frá klukkan 16:00 í dag en þá tekur appelsíngul viðvörun strax gildi fyrir Austurland að Glettingi. Appelsínugul viðvörun fyrir Austfirði tekur gildi klukkan 20:00 í kvöld.
Von er á norðvestan með snjókomu, 20-28 m/s og sterkari hviðum. Veðurstofan segir ekkert ferðaveður meðan stormurinn gengur yfir. Í fyrramálið lægir og gular viðvaranir taka við fram yfir hádegi.
Vegagerðin hefur einnig varað við að veðrið komu á sama tíma og stórstreymt sé við landið. Eigendur báta og skipa þurfa að tryggja þau og líkur eru á að álag verið á sjóvarnir, jafnvel að sjór fari yfir þær. Þess vegna þurfi að fara með gát í kringum þær.
Í yfirliti Vegagerðarinnar kemur einnig fram að vetrarblæðinga hafi orðið vart milli Reyðarfjarðar og Streitis auk þess sem hreindýr hafi sést á Fjarðarheiði.