Páll Baldurs: Skömm íslensks samfélags er mikil eftir það sem stúlkurnar þrjár máttu þola
Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, gagnrýnir íslensk stjórnvöld harðlega fyrir vinnubrögð þeirra í forræðisdeilu Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur við danskan barnsföður hennar um dætur þeirra þrjár. Íslenskir dómstólar dæmdu í fyrra að málið skyldi útkljáð ytra og hún ætti að fara með stelpurnar út. Þær voru þangað færðar með lögregluvaldi í sumar og föðurnum að lokum dæmt fullt forræði.
Skömm íslensks samfélags er mikil eftir þá framkomu sem þessar litlu stúlkur máttu þola á liðnu sumri. Sorglegt er jafnframt til þess að hugsa að (velferðar) kerfi okkar skuli ekki hlúa að þessum stúlkum,“ skrifar Páll í jólakveðju sína sem birtist í jólablaði Austurgluggans.
Hjördís Svan er ættuð úr Breiðdalshrepps og segir Páll að hugurinn á aðventunni sé hjá stelpunum þremur, líkt og oft áður. „Þó svo að heimili þeirra sé fjærri Breiðdals, þá eiga þær góðar rætur hingað til okkar og eru þar af leiðandi í mínum huga Breiðdælingar.“
Hjördís fór með stelpurnar án leyfis til Íslands haustið 2010 en forræðisdeilan var þá komin fyrir danska dómstóla. Héraðsdómur Austurlands og síðar Hæstiréttur Íslands úrskurðuðu að málinu skyldi lokið fyrir dönskum dómstólum. Hjördísi bæri því að fara með stelpurnar þrjár aftur til Danmerkur innan ákveðins tíma, ella yrðu þær færðar þangað með valdi.
Hún varð ekki við því og stelpurnar þrjár voru færðar til Danmerkur í sumar. Í haust dæmdu danskir dómstólar föðurnum fullt forræði. Hjördís segir hann hafa beitt bæði sig og stelpurnar ofbeldi. Í skýrslu sálfræðings sem lögð var fram í héraðsdómi Austurlands segir að í viðtölum hans við stelpurnar hafi ekkert komið fram sem benti til þess að systurnar hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu föðurins né vitni að því.
„Að mati Gunnars Hrafns séu stúlkurnar ekki dómbærar á það hvað sé þeim fyrir bestu í máli þessu. Þær taki afstöðu með móður á móti föður og þeim hætti til að líta á þetta mál á svart-hvítan hátt, þannig að móðir sé nærri algóð og geri allt rétt en faðir nær alvondur og geri margt rangt. [...] Afstaða telpnanna í málinu virðist byggja á því að þær taki afstöðu með móður og vilji vera hjá henni.“
Á Facebook-síðu stuðningshóps Hjördísar Svan kemur fram að hún fái að hitta dætur sínar á jóladag.