Pólitíska ákvörðun þarf til að lækka flugfargjöld

Forstjóri Air Iceland Connect, áður Flugfélags Íslands, segir að ríkið þurfi að koma að því ef lækka eigi flugfargjöld. Ekki sé nóg að einblína á fyrirtækið. Þingmaður segir meiri skilning á málinu vara vaxandi á Alþingi.


Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð samgöngunefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi en þar var rætt um flugmál.

Í fundargerðinni er haft eftir Árna Gunnarssyni, forstjóra Air Iceland Connect, sem var meðal gesta fundarins, að félagið sé til í að ræða starfsemi sína.

Ef lækka eigi flugfargjöld verði að koma til pólitísk ákvörðun. Ekki megi bara beina sjónum að flugfélaginu „sem hafi svolítið gerst.“

Árni sagði Flugfélagið hafa breytt miklu í rekstrum sínum, endurnýjað vélar og bætt við áfangastöðum. Farþegum hafi fjölgað í samræmi við meiri hagsæld í landinu en enn skorti upp á að fá fleiri ferðamenn til að fljúga innanlands.

Kjarnastarfsemi félagsins sé hins vegar enn í innanlandsfluga og horft væri til allra leiða til að fjölga farþegum. Þá sé nauðsynlegt að vera með mismunandi verðflokka til að mæta ólíkum hópum viðskiptavina.

Til fundarins mættu einnig Ívar Ingimarsson og Unnar Erlingsson sem farið hafa fyrir hópi um lægri flugfargjöld. Haft er eftir þeim að verðlagning flugsins standi í vegi fyrir jákvæðri mannfjöldaþróun. Þótt flugfélagið sé í skotlínunni sé í raun verið að þrýsta á yfirvöld að skilgreina innanlandsflugið sem almenningssamgöngur.

Á fundinn mætti einnig Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Norðausturkjördæmis, sem verður formaður nýrrar nefndar samgönguráðherra sem á að skoða leiðir til lækka kostnað flugfarþega við innanlandsflugs.

Njáll sagði baráttuna fyrir opinberri niðurgreiðslu á flugfargjöldum erfiða. Fáir þingmenn væru utan af landi og skilningurinn ekki endilega mikill. Hins vegar væri orðinn til ákveðinn pólitískur vilji og meiri skilningur fyrir að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur og ríkið hafi aðkomu að því.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.