Úr reiðhjólameistara á Eskifirði í Hells Angels
Einar „Boom“ Marteinsson hefur töluvert í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu sem forseti Íslandsdeildar vélhjólagengisins Hells Angels. Einar vakti þó fyrst athygli fyrir afrek í reiðhjólakeppni og íþróttum þegar hann var barn á Eskifirði.
Það var sumarið 1985 sem BFÖ (Bindindisfélag ökumanna) og DV ferðuðust um landið með ökuleikni. Keppt var á bílum, vélhjólum og reiðhjólum og var Eskifjörður á meðal viðkomustaða.
Þar vakti athygli framganga Einars Inga Marteinssonar sem stóð sig best í eldri flokki, 13 ára og eldri, á reiðhjólum, fékk þar 97 refsistig. Bæði var keppt í þrautabraut og umferðarspurningum og stóð Einar Ingi sig best í báðum riðlunum. Í myndatexta með frétt DV frá 1. júlí 1985 segir að Einar Ingi hafi sýnt „mikið öryggi“ í þrautabrautinni.
Sævar Guðjónsson vann í vélhjólaakstrinum og Stefán Kristinsson bílaakstrinum en hann vakti mikla athygli fyrir að keyra með hægri löppina í gifsi. Systir Stefáns, Inga, sigraði í kvennaflokki og tók jafnframt forustuna í landskeppninni það sumarið.
Aðra frétt um íþróttafrek Einars Inga má finna í DV í september 1986, hann var þá stigahæstur Austrafólks í flokki 14 ára og eldri á Sumarhátíð UÍA með 16 stig.
Einar er í dag þekktur sem Einar „Boom“ Marteinsson og er formaður Hells Angels á Íslandi. Hann situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um aðild að hrottalegri líkamsárás á konu í Hafnarfirði skömmu fyrir jól.