Þóra Arnórs og Ari Trausti heimsækja Austurland
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. apr 2012 18:45 • Uppfært 08. jan 2016 19:22
Forsetaframbjóðendurnir Ari Trausti Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir eru væntanleg til Austurlands í vikunni. Ari Trausti verður með tvo opna fundi en Þóra heimsækir fyrst og fremst vinnustaði.
Þóra ætlar að heimsækja Seyðfirðinga og Héraðsbúa á morgun en Eskfirðinga, Reyðfirðinga og Norðfirðinga á þriðjudag. Austfirðingar geta átt von á að rekast á Þóru á hinum ýmsu stöðum, til dæmis bensínstöðvum og matvöruverslunum, þar sem hún verður með opna, óformlega fundi. Einn slíkur verður í Menntaskólanum á Egilsstöðum klukkan 17:00 á morgun.
Ari Trausti verður með opna fundi á Egilsstöðum og í Neskaupstað . Þar hyggst hann hitta væntanlega kjósendur, kynna sig og framboðið og óska eftir undirskriftum til stuðnings framboðinu.
„Í fyrstu ferð tekst mér að komast á suma þéttbýlisstaðina en ekki alla.Biðst velvirðingar á því. Vonast til að bæta úr þessu í júní,“ segir í tilkynningu frá Ara.
Þriðjudaginn 24. apríl verður hann á Kaffi Egilsstöðum og í Egilsbúð daginn eftir. Báðir fundirnir hefjast klukkan 20:00. Hann hyggst einnig líta við á Seyðisfirði, Eskifirði og Reyðarfirði.