Þóra Arnórs: Vissi ekki af óánægju hinna frambjóðandanna með fyrirkomulag kappræðnanna

thora_arnors_fljotsdalsherad_0026_web.jpg

Þóra Arnórsdóttir, forsetaframbjóðandi, segist ekki hafa vitað af ósætti mótframbjóðenda sinna Ara Trausta Guðmundssonar, Herdísar Þorgeirsdóttur, Andreu Ólafsdóttur og Hannesar Bjarnasonar með fyrirkomulag sjónvarpskappræðna á Stöð 2 á sunnudaginn var. Hún segist vilja leggja meiri áherslu á umræður um framtíðina en fortíðina.

 

„Hefði þetta verið sjónvarpshandrit þá hefði því verið hafnað því þetta hefði þótt of ótrúverðugt,“ sagði Þóra á vinnustaðafundi á Fljótsdalshéraði í dag. Þar lýsti hún aðdraganda kappræðnanna þar sem þrír frambjóðendur gengu út í upphafi þáttar vegna óánægju með fyrirkomulagið.

Þóra segir Stöð 2 fyrst hafa haft samband í maí og boðið henni að mæta Ólafi einum. Þá hafi ekki framboðsfresturinn ekki einu sinni verið útrunnin og hún verið ósátt við þær hugmyndir. Forsvarsmenn Stöðvar 2 hafi samt talið sig þjóna lýðræðinu best með að tala aðeins við þá sem höfðu yfirburða forustu í skoðanakönnunum. Stöðin hafi litið svo á að þátturinn væri á lokasprettinum.

Hinir frambjóðendurnir fjórir voru óánægðir með að vera ekki boðið og fjölmargir urðu til að gagnrýna fyrirkomulagið. Þóra sendi stöðinni bréf þar sem hún gagnrýndi fyrirkomulagði. Hún fylgdi því síðan eftir með tilkynningu á laugardag þar sem hún sagðist ekki ætla að taka þátt. Stöð 2 neyddist þá til að breyta fyrirkomulaginu. 

Þóra segir skiptar skoðanir hafa verið í hennar herbúðum um hvort hún ætti að mæta Ólafi einum eða ekki. Sumir hafi bent á að Ólafur Ragnar, sem mikið hefði rætt og ritað um lýðræði, ætlaði að vera með og fyrirkomulagið virtist ekki angra hann. Niðurstaðan hafi samt verið sú að standa föst á sínum prinsippum. „Svona vildum við ekki hafa þetta.“

Aðrir frambjóðendur urðu þó aftur óánægðir með það fyrirkomulag sem síðan var borið upp, tveir og tveir í einu í stafrófsröð. Þóra segir að það fyrirkomulag hafi ekki verið henni á móti skapi. Allt yrði tímamælt, 26 mínútur yrði á hvert par og 12 mínútur á frambjóðanda. Henni kom því á óvart þegar Andrea, Hannes og Ari Trausti gengu út. „Ég vissi ekki af ósætti hinna.“

Þóra hefur verið á ferð um Austurland í gær og í dag. Hún hefur lagt áherslu á boðskap sinn um að sameina þjóðina inn á við. „Það er of mikið talað um það sem gerðist fyrir 2012,“ sagði hún og bætti við að hún vildi leggja áherslu á það sem væri framundan.

Fundargestir hafa notað tækifærin til að skjóta ýmsum spurningum að Þóru, meðal annars um frammistöðu hana sem spyrils í Útsvari. Á Eskifirði virtust menn ósáttir við útreið Jóns Svans Jóhannssonar í baráttu um bjölluna í viðureign Fjarðabyggðar og Ísafjarðarbæjar. „Af hverju stoppaðirðu ekki ísfirska skriðdrekann sem rifbeinsbraut kennarann okkar?“ var þar spurt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar