Ráðherra vonast til að skoska leiðin auki eftirspurn og samkeppni í flugi

Starfshópur sem samgönguráðherra hefur skipað til að meta möguleika á niðurgreiðslum í innanlandsflugi er tekinn til starfa. Hópurinn á meðal annars að skoða niðurgreiðslur sem Skotar hafa beitt með góðum árangri.

„Við getum ekki verið án innanlandsflugs í þessu fámenna, stóra landi,“ sagði Jón Gunnarsson, ráðherra við setningu ráðstefnu um innanlandsflug sem almenningssamgöngur. Austurbrú var meðal þeirra sem stóðu að málþinginu sem haldið var á Hótel Natura í Reykjavík í dag.

Ráðherrann benti á að hérlendis væru annars vegar flugleiðir sem væru eingöngu reknar á markaðslegum forsendum, hins vegar með styrkjum úr ríkisjóði. „Í báðum þessum rekstrarformum eru fargjöld of dýr,“ sagði Jón.

Hann sagði það augljóst þegar horft væri á fargjöld í millilandaflugi sem lækkað hafi verulega á síðustu árum með auknu framboði.

Ráðherrann sagðist vel meðvitaður um bæði efnalagslegan og félagslegan ábata sem greiðari flugsamgöngur hafi en í skýrslu, sem gerð var fyrir ráðuneytið árið 2014, var félagslegur ábati innanlandsflugs metinn 70 milljarðar króna á ári.

Skoska leiðin gæti styrkt búsetu

Fyrir mánuði skipaði Jón þriggja manna nefnd sem ætlað er að greina kosti í innanlandsfluginu. Nefndin á að fjalla um núverandi fyrirkomulag, hugmyndir að breytingum, hvaða leikreglur skili mestu en reyna að nýta markaðslögmálin og tryggja gagnsæja verðlagningu flugvalla.

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar á sæti í hópnum en formaður er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður frá Akureyri. Þá situr Jón Karl Ólafsson, yfirmaður innanlandsflugvalla Isavia, í hópnum.

Þeim er meðal annars ætlað að meta ávinning skosku leiðarinnar, en Skotar hafa um árabil niðurgreitt flugfargjöld fyrir þá sem eiga lögheimili í norðvesturhluta landsins. Jón bindur vonir við þá leið.

„Sú leið er til þess fallin að styrkja búsetu og öflugt innanlandsflug spilar stóran þátt í því. Landsbyggðin á líka stóran þátt í að auka verðmætasköpun í samfélaginu og flugið hjálpar til þannig hægt sé að stíga þau skref. Eitt af markmiðum skosku leiðarinnar er að auka eftirspurn og þar með samkeppni.“

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili af sér áfangaskýrslu fyrir áramót og lokaniðurstöðum á næsta ári.

Óraunhæft að ætla að flytja Reykjavíkurflugvöll á næstu árum

Jón kom einnig inn á málefni Reykjavíkurflugvallar en hann sagði unnið að undirbúningi að framkvæmdum nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll strax á næsta ári. Núverandi aðstaða væri óboðleg bæði farþegum og starfsfólki.

„Það er óboðlegt að yfirvöld í Reykjavík séu með það á dagskrá sinni að völlurinn flytji eftir nokkur ár. Slíkt er óraunhæft, umræðan um hvort við flytjum völlinn mun taka mörk ár. Ef þessi áform ganga eftir er þýðingarlaust að tala um eflingu innanlandsflugsins. Völlurinn verður hér þar til við tökum aðra ákvörðun síðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.