Ráðgera að tugir íbúða rísi á fótboltavellinum

Hugmyndir eru uppi um að á fjórða tug íbúða rísi á Garðarsvelli, íþróttavelli Seyðfirðinga, á næstu árum. Skipulagsvinna er að hefjast fyrir ný íbúðasvæði í bænum.


Þetta kom fram í máli Hugrúnar Hjámarsdóttir, framkvæmda- og umhverfisstjóra Múlaþings, á íbúafundi fyrir Seyðfirðinga í gær.

Unnið er að því að reisa íbúðarhúsnæði, meðal annars í ljósi skriðufallanna á Seyðisfirði um miðjan desember og var nýverið skrifað undir samninga um byggingu sex íbúða í þremur raðhúsum á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Horft er á að byggja tvö húsanna við Múlaveg, innan Dagmálalækjar. Þar verður þremur einbýlishúsalóðum breytt í tvær parhúsalóðir. Þar er grenndarkynning að hefjast og kvaðst Hugrún vonast til þess að framkvæmdir færu fljótlega af stað. Hún sagðist vita til þess að HMS væri komin í viðræður við verktaka.

Ekki er búið að ákveða hvar þriðja parhúsið verður en Hugrún sagði lóð við Túngötu til skoðunar.

Þá er horft til þess að byggja 36 íbúðir þar sem knattspyrnuvöllur Seyðfirðinga, Garðarsvöllur, er í dag. Völlurinn hefur verið svo gott sem ónothæfur síðustu ár og hugmyndir um enduruppbyggingu hans hafa ekki náð fram að ganga. Með þessum hugmyndum er útlit fyrir að hann heyri fljótt sögunni til.

Gert er ráð fyrir að tvær götur þveri völlinn og gæti önnur þeirra verið nefnd eftir íþróttafélaginu Huginn. Á innri enda vallarins er gert ráð fyrir að byggja íbúðakjarna með átta íbúðum, sem verið hefur til skoðunar síðustu mánuði. Hann er ætlaður íbúum 55 ára og eldri og er byggður með framlagi frá ríkinu.

Til viðbótar honum er teiknað inn á skipulagið þrjú raðhús með fjórum íbúðum hvert og fjögur tveggja hæða hús sem hvert verði með fjórum íbúðum. Að auki er gert ráð fyrri bæði útivistar- og leiksvæði á vallarsvæðinu.

Skipulagið fer fyrir umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings í næstu viku og heimastjórn Seyðisfjarðar í byrjun mars. Íbúar munu einnig hafa aðkomu eins og skipulagslög gera ráð fyrir, jafnvel strax í mars.

Hugrún sagði hins á að setja Íslandsmet í deiliskipulagsvinnu þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir á svæðinu fljótt og vel. A-lína ofanflóða liggur í gegnum svæðið en Hugrún sagði skipulagsdrögin hafa verið borin undir sérfræðinga Veðurstofunnar sem sýnt hefðu jákvæð viðbrögð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.