Ráðherra áformar lagabreytingar um sambúð sæstrengja og fiskeldis

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, áformar að breyta fjarskiptalögum á næsta ári til að tryggja sambúð sjókvíaeldis og sæstrengja.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær telur Farice, sem rekur þrjá sæstrengi fyrir fjarskipti til og frá Íslandi, ekki hægt að gefa út leyfi fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði fyrr en fjarskiptalögum hefur verið breytt til að bregðast við eldinu.

Einn strengjanna, Farice-1, liggur inn Seyðisfjörð og kemur í land á Vestdalseyri. Samkvæmt núverandi lögum mega skip hvorki vera með veiðarfæri né akkeri í botni en sem nemur fjórðungi úr sjómílu sitt hvoru megin við strenginn. Er það svokallað helgunarsvæði.

Í umsögn Farice um rekstrarleyfið segir að núverandi reglur taki ekki tillit til eldiskvía sem alla jafna séu festar með akkerum í botn og lendi í Seyðisfirði innan helgunarsvæðisins. Farice hefur kallað eftir að bannað verði að hafa akkeri kvía innan helgunarsvæðisins. Þá vill Farice einnig að eldissvæðin verði staðsett þannig að skip og prammar sem þjónusta kvíarnar þurfi ekki að varpa akkerum innan helgunarsvæðisins.

Farice hefur undanfarin ár vakið athygli á þessari stöðu, fyrst við Skipulagsstofnun við gerð haf- og strandsvæðaskipulags Austfjarða árið 2020 en síðar við ráðuneytið í fyrra. Þar fengust í dag þær upplýsingar að breytingar á lögum um fjarskipti séu á þingmálaskrá ráðherra fyrir vorið 2025. Áætlað er að breytingarnar snúist um helgunarsvæði fjarskiptastrengja á milli landa með tilliti til sjókvíaeldis. Fram kemur í svarinu að vinna við frumvarp þessa efnis sé á byrjunarstigi.

Það er Kaldvík sem sótt hefur um leyfi til að ala allt að 10.000 tonn af laxi á þremur eldissvæðum í Seyðisfirði. Talsmenn fyrirtækisins hafa alla tíð haldið því fram að hægt sé að hanna festingar kvíanna þannig að þær skarist ekki á við helgunarsvæði sæstrengsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.