Ráðherra heitir að gera það sem hægt er til að manna heilbrigðisþjónustuna

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að á næstu dögum muni líta dagsins ljós stefnumörkun sem að hluta nýtist til að bregðast við erfiðleikum í mönnun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Bundnar eru vonir við fjarheilbrigðisþjónustu þar sem illa gengur að manna stöður.

Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Austurfréttar sem send var í framhaldi frétta af erfiðleika við að fá lækna til starfa á Seyðisfirði þegar sá læknir sem allajafna býr þar er í fríi. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur óskað eftir því að ráðherra komi austur til að ræða stöðuna.

Í svarinu bendir ráðherrann á að í ráðuneytinu sé nú unnið að stefnumörkum um heilbrigðisþjónustu fram til ársins 2030. Þar verði meðal annars tekið á mönnunarmálum á heilbrigðisstofnunum og einnig fjarheilbrigðisþjónustu sem jafna muni aðgengi að þjónustu sem ekki gangi að manna.

Á næstu dögum skili starfshópur um fjarheilbrigðisþjónustu ráðherra skýrslu með tillögum sínum. Eitt af því sem unnið er að af hálfu ráðuneytisins í samvinnu við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og heilbrigðisstofnanir um allt land er að móta skipulag sem ætlað er að tryggja betur þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðinni.

Erfiðleikar við að manna stöður í heilbrigðisþjónustunni eru þó alls ekki bundnar við Seyðisfjörð eða Austurland heldur gætir þeirra víða á landsbyggðinni.“

„Víða á landsbyggðinni er erfiðleikum háð að manna stöður lækna með einstaklingum sem vilja búsetja sig í viðkomandi byggðarlagi,“ segir í svari Svandísar.

Í frétt Austurfréttar/Austurgluggans var haft eftir Pétri Heimissyni, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, að vilji væri til að halda uppi þjónustunni á Seyðisfirði en víða væri erfitt að fá lækna til fastra starfa á landsbyggðinni.

Ráðherra heitir því þó að gera það sem hægt er til að styðja við heilbrigðisstofnanirnar. „Ráðuneytið mun gera allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda mönnun heilbrigðisstarfsfólks á landsbyggðinni en eftir stendur að það er ábyrgð og hlutverk heilbrigðisstofnananna sjálfra að tryggja mönnun og veitingu þjónustu innan sinnar lögsögu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar