Ráðinn verkefnisstjóri Nýtingarmiðstöðvar á Vopnafirði

Búið er að vinna alla frumvinnu við undirbúning þess að koma á fót Nýtingarmiðstöð á Vopnafirði og nú hefur næsta skref verið tekið með ráðningu verkefnisstjóra sem skal gera hugmyndirnar að veruleika.

Í upphafi þeirrar vinnu var um að ræða matvælakjarna í miðbæ Vopnafjarðar þar sem allir áhugasamir um hvers kyns matvælaframleiðslu gætu komið saman undir einu þaki með aðgang að fullkomnu vottuðu eldhúsi og dýrum tækjum án mikils kostnaðar fyrir hvern og einn.

Í undirbúningsvinnunni kom í ljós að margir í firðinum og nágrenni eru að skapa og vinna með ýmislegt fleira spennandi en matvæli og í kjölfar þess var hugmyndin útvíkkuð í nýtingarmiðstöð svo allir gætu átt þar athvarf til nýsköpunar og vöruþróunar. Verkefnið er unnið í samvinnu Vopnafjarðarhrepps, Austurbrúar og útgerðarfyrirtækisins Brims með góðri aðstoð frá ríkinu.

Miðstöðin skal staðsett í hluta gamla sláturhúss bæjarins og það einmitt eitt hlutverk nýráðins verkefnisstjóra, Rögnvalds Þorgrímssonar, að skipuleggja hlutina þar innandyra. Hann hefur mikla reynslu af matvælavinnslu gegnum tíðina eða eins og hann sjálfur orðar það þá er hann ekki lærður sérfræðingur en veit fjölmargt um fjölmargt í þessum geira.

Hann sjálfur aðeins búið í Vopnafirði um hálfs árs skeið en eiginkonan hefur hins vegar um þriggja ára skeið. Bæði afar sátt og harðákveðin í að vera sem lengst í firðinum að sögn Rögnvalds.

„Við getum sagt að við séum ekkert komin hingað á svæðið til að prófa eitt né neitt heldur þvert á móti að verða eins miklir Vopnfirðingar og hægt er fyrir utanaðkomandi. Ég er ráðinn í 50% starf til áramóta og svo verður um 80% starf að ræða í kjölfarið. Starfið núna snýst um að koma á koppinn framkvæmdaáætlun og skapa strúktúr utan um verkefnið og svo þegar þetta kemst á verklega stigið dembi ég mér dýpra ofan í hlutina. Ég er ekkert lítið spenntur fyrir þessu verkefni enda hugmyndin aldeilis frábær og svo margir hér þegar að fikra sig áfram með alls kyns vöruþróun og framleiðslu þannig að svona miðstöð gæti sannarlega skipt sköpum fyrir samfélagið hér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar