Rannsókn lokið á mengunarslysi í íbúðabyggð á Reyðarfirði

Rannsókn lögreglu og heilbrigðiseftirlits á mengunarslysi sem varð í íbúðahverfi á Reyðarfirði í janúar með þeim afleiðingum að fjölskylda þurfti að flytja út næturlangt vegna óþæginda er lokið. Aldrei var talin mikil hætta á ferðum.

Það staðfesta bæði Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni og Lára Guðmundsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands við Austurfrétt.

Umrætt atvik átti sér stað með þeim hætti að fjölskylda ein í bænum fór að finna fyrir undarlegri sterkri lykt sem fór fljótlega að valda heimilisfólkinu mikilli ertingu og sviða í augum. Svo miklum að fjölskyldan yfirgaf heimilið um tíma og hluti heimilisfólks leitaði ásjár læknis vegna óþæginda.

Lögregla og slökkvilið var kallað til vegna málsins í kjölfarið og við eftirgrennslan kom í ljós að gamall frostlögur úr leiðslum húss næsta nágranna fjölskyldunnar hafði lekið í niðurföll eftir að leiðsla gaf sig. Eiturgufur hafi þannig borist gegnum lagnir inn í hús fjölskyldunnar með ofangreindum afleiðingum.

Það kom svo í hlut Heilbrigðiseftirlits að kanna aðstæður og leiðbeina um viðbrögð og fór strax fram viðgerð á lögnunum. Ekki hefur neins orðið vart síðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar