Rannsókn sögð í góðum farvegi

Einn sætir farbanni í hnífsstungumáli á Akureyri um síðustu helgi. Ungmennafélagið Einherji á Vopnafirði hefur ákveðið að leikmaður félagsins, sem grunaður er um aðild að málinu, æfi hvorki né keppi með því meðan það er í rannsókn en segir atburðarásina aðra en komið hafi fram.

Félagið sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem staðfest var að erlendur leikmaður félagsins væri grunaður um aðild að líkamsárás með hnífi í heimahúsi á Akureyri um síðustu helgi.

Í yfirlýsingunni segir að samkvæmt upplýsingum stjórnar félagsins hafi átt sér stað ryskingar milli þriggja einstaklinga sem endaði hafi verið með hörmulegum hætti. Þar kemur fram að lýsingar leikmannsins samræmist ekki fréttaflutningi af málinu til þessa.

Bæði 433.is og RÚV höfðu greint frá því að manninum hefði verið vísað úr samkvæmi í heimahúsi á Akureyri en snúið aftur og þá stungið annan gest með hnífi. Staðfest var að einn hefði verið fluttur á sjúkrahús og væri líðan hans góð miðað við að hafa verið stunginn með hnífi.

Lögreglan á Akureyri kveðst ekki geta veitt neinar upplýsingar um atburðarásina eða einstök atriði málsins samkvæmt yfirlýsingu Einherja þegar Austurfrétt leitaði eftir því í morgun, að öðru leyti en því að málið væri í rannsókn og „í góðum farvegi.“ Staðfest var að héraðsdómur Norðurlands eystra hefði samþykkt farbann yfir einum einstaklingi vegna málsins.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála snýst farbann um að er hægt að banna einstaklingum brottför af landi, eða fyrirskipað einstaklingi að halda sig innan ákveðins svæðis sé ákveðnum skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi fullnægt. Þau skilyrði eru að ætla megi að sakborningur muni annað hvort torvelda rannsókn, svo með að skjóta undan sönnunargögnum, eða reyna að komast úr landi eða undan málsókn eða refsingu á annan hátt sé rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar