Ratcliffe vill taka þátt í verndun Vopnafjarðar

Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe, sem keypt hefur upp land í Vopnafirði, vill stuðla að áframhaldandi landbúnaði í Vopnafirði og varðveislu fiskistofna í laxveiðiáa þar.


Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjölmiðlafulltrúa Ratcliffe sem er svar við fyrirspurn Austurfréttar/Austurgluggans. Í blaðinu síðasta föstudag var greint frá því að Ratcliffe hefði í gegnum eignarhaldsfélög sín keypt þrjár jarðir í Vopnafirði og ætti hlut í átta í viðbót í gegnum eign í Veiðiklúbbnum Streng.

Eignarhaldið er staðfest í yfirlýsingunni en í henni er lýst vilja Ratcliffe til að varðveita náttúru Vopnafjarðar.

„Hann hefur veitt í ám í kringum Vopnafjörð árum saman og hefur tekið ástfóstri við Ísland, einkum Vopnafjarðarsvæðið, eftir tíðar heimsóknir.

Jim vill fjárfesta í verkefnum sem tengjast náttúruvernd og hefur keypt land í Vopnafirði þar sem hann vill vinna með núverandi landeigendum og íbúum til að varðveita hið einstaka umhverfi fjarðarins.

Hann stoltur og ánægður með að taka þátt í að vernda stofn Atlantshafslaxins og laxveiðar á svæðinu. Hann gerir sér ljóst að lönd og ár eru eitt. Hann ætlar sér að vinna áfram með bændum til að viðhalda landbúnaði og áframhaldandi búsæld á svæðinu.“

Samkvæmt lista Forbes er Ratcliffe fimmti ríkasti maður Bretlands. Eignir hans eru metnar á sjö milljarða dollara eða 790 milljarða króna á gengi dagsins. Samkvæmt fjárlögum ársins 2017 eru heildartekjur ríkissjóðs Íslands áætlaðar rúmir 770 milljarðar. Auður Ratcliffe byggir á fyrirtækinu Ineos sem sérhæfir sig í vinnslu efna úr gasi og olíu.

Mynd: Chemical Heritage Foundation/Creative commons 3.0

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar