Rauði krossinn tók á móti neyðarvarnakerrum: Fjöldahjálparstöðvar á hjólum

Rauði krossinn á Austurlandi tók á dögunum við tveimur neyðarvarnakerrum sem innihalda búnað til að opna fjöldahjálparstöðvar.

Kerrurnar verða staðsettar á Egilsstöðum og Eskifirði en eru til taks fyrir allan fjórðunginn verði þeirra þörf.

Kerrurnar innihalda allt það helsta sem þarf til að opna og starfrækja fjöldahjálparstöðvar fyrstu sólarhringana. Í kerrunum er til að mynda að finna rafstöð, 30 bedda og teppi, sjúkratösku, 30 hreinlætispakka, ljósaluktir, orkustykki og skráningarblöð.

Kerran auðveldar þannig Rauða kross deildum að opna og starfrækja fjöldahjálparstöðvar þar sem slíkt hefði annars verið erfitt, til dæmis utan þéttbýlis þar sem heppilegt húsnæði er ekki fyrir hendi.

Dagur Skírnir Óðinsson verkefnisstjóri Rauða krossins á Austurlandi er að vonum ánægður með komu kerranna „Það er gleðilegt að fá þessar kerrur hingað austur. Þetta styrkir neyðarvarnir fjórðungsins og eykur viðbragðsgetu Rauða kross deildanna, þetta eru eiginlega bara fjöldahjálparstöðvar á hjólum,“ segir Dagur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.