Reiknað með 160 milljóna afgangi hjá Fljótsdalshéraði
Gert er ráð fyrir 160 milljóna afgangi af rekstri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs í nýsamþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Mest framkvæmdafé fer í skóla- og íþróttamannvirki.Reiknað er með að heildartekjur sveitarfélagsins nemi 4,7 milljörðum króna og hrein rekstrargjöld 3,8 milljörðum. Rúmur helmingur þeirra fer til fræðslu- og uppeldismála. Búist er við nokkurri hækkun útsvarstekna, upp á 7,3%.
Stærstu nýframkvæmdirnar á árinu eru viðbygging við leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ, fimleikahús og útikörfuboltavöllur á Egilsstöðum. Þessi verkefni kosta samanlagt 572 milljónir og verður lokið árið 2021.
Þá verður byrjað á endurbótum við Safnahúsið og Sláturhúsið sem lýkur árið 2022. Þær kosta alls 442 milljónir en hluti fjármagnsins kemur frá ríkinu.
Áætlað framkvæmdafé Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) á næsta ári er 143 milljónir og verður að mestu varið til vinnu við fyrsta áfanga í nýrri fráveitu. Upphæðin var lækkuð úr 209 milljónum á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárhagsáætlunar og um leið minnkaði lánsfjárþörf sveitarfélagsins úr 100 milljónum í 45.
Af öðrum sérstökum verkefnum á næsta ári sem nefnd eru í áætlanir má nefna 20 milljónir til ljósleiðaraverkefna í sveitarfélaginu, fjármagn til landvörslu á Úthéraði og viðbótarframlags til leikskóla- og dagvistunarmála vegna sérstakrar ungbarnadeildar fyrri hluta ársins 2019.