Reiknar með að flestir eigendur Búsældar taki tilboði KS
Stjórnarformaður Búsældar ehf., sem fer með eignarhlut bænda í kjötiðnaðarfyrirtækinu Kjarnafæði Norðlenska (KN), telur að flestir þeirra selji hlut sinn til Kaupfélags Skagfirðinga (KS), sem í byrjun júlí gerði yfirtökutilboð í félagið. Formaðurinn treystir á að skilyrði í búvörulögum tryggi að kaupin verði bæði bændum og neytendum til hagsbóta.„Miðað við það sem ég hef heyrt frá fólki á ég von á flestir selji sinn hlut,“ segir Gróa Jóhannsdóttir, bóndi að Hlíðarenda í Breiðdal og stjórnarformaður Búsældar.
Búsæld er félag rúmlega 460 bænda, mest á Austur- og Norðurlandi, sem áður áttu kjötiðnaðarfyrirtækið Norðlenska sem birtist neytendum helst í gegnum vörumerkið Goða. Eftir að Norðlenska sameinaðist Kjarnafæði árið 2021 varð eign Búsældar í nýju félagið 43%.
Viðbúið að Búsæld verði lögð niður
Í byrjun júlí var tilkynnt um að KS hefði gert tilboð í allt hlutafé Kjarnafæði Norðlenska. Tilboðið fól það í sér að stjórn Búsældar myndi spyrja hvern hluthafa hvort hann vildi selja sinn hlut. Frestur til að svara rann út á sunnudag. Gróa segir að ekki séu öll svör komin enn en væntir þess að þau liggi að mestu fyrir í lok vikunnar. Tíma taki til dæmis að greiða úr málum þar sem eignin sé inni í dánarbúum. Aðspurð sagðist Gróa sjálf ekki vera búin að svara tilboðinu formlega en frekar reikna frekar með að selja.
Nánar aðspurð kveðst hún frekar vænta þess að bændur selji allan sinn hlut frekar en hluta. „Við vitum ekki enn hvað verður um Búsæld. Ef það verða fáir eftir þá verður eignarhluturinn það lítill að hann skiptir engu máli. Þá er líklegt að hún verði lögð niður og einstaklingar eigi beina aðild að félaginu. Þá snýst þetta fyrst og fremst um að fá fundarboð á aðalfund.“
Rétturinn til slátrunar á að vera tryggður
Annar hagur sem gæti þó skipt bændur máli er rétturinn til að fá slátrað á ákveðnum kjörum. Framleiðslufélög bænda, þau félög sem sjá um slátrun, úrvinnslu og dreifingu landbúnaðarafurða, eru um nær allan heim í einhvers konar samvinnufélagaformi, þar sem þeir sem standa innan félagsins njóta betri kjara eða aukinna réttinda heldur en þeir sem standa utan þeirra. Þessi réttur á þó að vera tryggður með ákvæðum í nýjum búvörulögum sem Alþingi samþykkti í mars.
Gróa segir þennan rétt hafa verið eina stærstu spurninguna á fimm kynningarfundum um yfirtökuna á félagssvæði Búsældar í ágúst. Á Austurlandi voru fundir á Egilsstöðum og Breiðdalsvík. „Forsvarsmenn KS telja að menn séu tryggir með slátrun þótt þeir eigi ekki í félaginu vegna ákvæða í nýju lögunum. Í þeim er framleiðendafélögum gert að safna afurðum frá framleiðendum á sömu viðskiptakjörum og aðrir. En það er alltaf erfitt að vita hvað gerist í framtíðinni.“
Ákvæðið sem Gróa vísar í er að finna í 71. grein laganna, sem hefur verið afar umdeild því hún undanskilur samruna eða samvinnu framleiðendafélaganna frá samkeppnislögum. Þar eru þó skilyrði um að framleiðslufélög sem nýta sér þetta ákvæði skuli safna afurðum frá framleiðendum á sömu kjörum, selja öðrum vinnsluaðilum hráefni á sömu kjörum og sínum félögum og ekki setja skorður við að framleiðendur færi sig milli félaga. Þetta ákvæði gerði KS kleift að kaupa Kjarnafæði Norðlenska.
Væntir þess að yfirtakan skili bæði neytendum og bændum ávinningi
Undanþágan frá samkeppnislögunum er ætluð til að auka hag bæði bænda og neytenda en ýmsir hafa efast um að það náðist. Gróa bendir á að í lögunum sé ákvæði um að fyrir lok árs 2028 skuli Alþingi fá skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga um árangur lagabreytinganna, sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hafi verið.
„Ég held að þau fyrirtæki sem starfa eftir þessum lögum, hvað sem þau heita eða hverjir sem þau eiga, hafi hag af að sýna að lögin hafi verið til góðs með að skila ávinningnum til neytenda og bænda. Ýmsir hagsmunir bænda og fyrirtækjanna eru að miklu leyti þeir sömu. Ég held að framleiðsluvilji bænda sé það lítill að þeir hætti ef ekki fæst þokkalegt verð fyrir afurðirnar og ef þeir hætta eru afurðastöðvarnar líka dauðadæmdar. Þess vegna vonum við og treystum að lögin skili ávinningi.“
Óbreytt fyrirkomulag slátrunar í haust
Sauðfjárslátrun hefst hjá bæði Kjarnafæði Norðlenska og KS eftir slétta viku. Yfirtakan kemur það seint að engar breytingar verða á fyrirkomulagi hennar í haust, en sláturhús Norðlenska á Húsavík hefur undanfarin ár verið helsta sauðfjársláturhús Austfirðinga. „Nýir eigendur ákveða hvað gerist næsta haust en stjórnendur KS hafa talað um að reka Kjarnafæði Norðlenska áfram sem sjálfstætt fyrirtæki.“
Sú breyting hefur þó orðið á að Sláturfélag Vopnfirðinga er hætt starfsemi. Aðspurð segist Gróa hafa þær upplýsingar að þeir bændur sem áður slátruðu þar skiptist milli KS og Kjarnafæði Norðlenska.