Rekstur Fljótsdalshrepps á núllinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. jan 2013 11:50 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Hreppsnefnd Fljótsdalshrepps gerir ráð fyrir að rekstur sveitarfélagsins verði við núllið á þessu ári. Stærstu framkvæmdirnar eru á sviði samgöngumála og uppbyggingar í ferðaþjónustu.
Samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að um fimmtíu þúsund króna afgangur verði af heildarrekstri sveitarfélagsins á árinu.
Fjárfestingar eru áætlaðar 60,5 milljónir króna. Þar ber hæst 25 milljónir í uppbyggingu Fjallaskarðsskála, tuttugu milljónir í samgöngubætur í sveitarfélaginu og tíu milljónir í uppbyggingu Óbyggðasafns Íslands.
Engin lántaka er fyrirhuguð á árinu. Eignir sveitarfélagsins eru metnar á rúmar 950 milljónir kóna og skuldbindingar á 32,2 milljónir.
Árið 2011 var tæplega fjórtán milljóna króna afgangur af rekstri sveitarfélagsins. Skuldir hafa síðan þá lækkað um tuttugu milljónir og handbært fé um rúmar fimmtíu milljónir.