„Rétta leiðin til að tryggja samfellu í starfinu“

Eydís Ásbjörnsdóttir, nýr forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, segir það góða leið til að tryggja samfellu í starfi Fjarðabyggðar að Jón Björn Hákonarson taki við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar af Karli Óttari Péturssyni sem lét af störfum í morgun.

„Við höfum átt gott samstarf í meirihlutanum og teljum þetta góða og rétta leið í þeirri stöðu sem er komin upp til að tryggja samfellu í starfinu og fylgja eftir okkar málefnasamningi.

Kjörtímabilið er vel rúmlega hálfnað og ýmis verkefni sem liggja fyrir. Við erum að vinna fjárhagsáætlun og síðan er staðan í samfélaginu eins og hún er. Það er nóg af verkefnum,“ segir Eydís.

Hún var oddviti Fjarðalistans og varð formaður bæjarráðs þegar listinn myndaði meirihluta með Framsóknarflokki að loknum kosningum 2018. Jón Björn varð Þá forseti bæjarstjórnar og Karl Óttar var ráðinn til starfa. Eftir tíðindi morgunsins hefur þessi hlutverkaskipting breyst en Sigurður Ólafsson, annar maður af lista Fjarðalistans, tekur við sem formaður bæjarráðs. Eydís tekur sömuleiðis við formennsku í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd sem Jón Björn gegndi áður.

Síðan tilkynnt var um starfslok Karls Óttars í morgun hefur verið unnið að þeirri lausn sem nú liggur fyrir. „Við erum búin að vera að vinna að lausn og teljum þetta bestu leiðina. Við höfum átt mjög gott samstarf.

Aðspurð svarar hún að sátt ríki innan Fjarðalistans um ráðningu Jóns Björns sem bæjarstjóra út kjörtímabilið.

Samkvæmt tilkynningu Fjarðabyggðar frá í morgun óskaði Karl Óttar sjálfur eftir starfslokum. „Við urðum við því. Við höfum átt gott samstarf og óskum honum velfarnaðar.“ Aðspurð segir Eydís að Karl Óttar hafi sjálfur óskað eftir starfslokum en hún geti ekki tjáð sig um starfsmannamál.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar