Reyðfirðingar óttast að aksturs- og skotsvæði skemmi skógræktarsvæði

Hópur íbúa á Reyðarfirði óttast að áform um að byggja upp aksturs- og skotíþróttasvæði utan við bæinn eyðileggi skógræktarsvæði sem byggt hefur verið þar upp. Forsvarsmenn sveitarfélagins segjast hafa gefið íbúum tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri og að tillit hafi verið tekið til þeirra.


Skipulag svæðisins var aðalmálið á íbúafundi sem haldinn var á Reyðarfirði fyrir skemmstu. Málið hefur verið á ís mánuðum saman eftir að um 130 íbúar skrifuðu undir undirskriftalista þar sem áformunum var mótmælt. Nær engar athugasemdir bárust hins vegar í hinu formlega skipulagsferli.

„Við frestuðum málinu til að kalla eftir athugasemdum íbúa. Það getur ekki talist metnaðarleysi. Sýn okkar er að þetta er dýrmætt svæði og því viljum við ná sátt. Við viljum fá fram sjónarmiðin svo tökum við endanlega afstöðu,“ sagði Ragnar Sigurðsson, varaformaður eigna-, skipulags og umhverfisnefndar.

Í skipulagi íþróttasvæðanna er meðal annars gert ráð fyrir einni gokart braut sem megi malbika, tveimur öðrum undir vélíþróttir, 2-300 metra riffilbrautum og haglabyssusvæði auk bygginga undir félagsstarf.

Íbúar lýstu meðal annars þeirri skoðun að skógræktarsvæðið yrði eyðilagt með nábýlinu við hávaðasöm íþróttasvæði. Þá væri verið að vega að framtíðaratvinnusvæði þar sem skógrækt væri langhlaup. Spurt var hvort ekki væri hægt að samnýta skotsvæði með Skotfélagi Austurlands á Eyvindarárdal.

Aðrir bentu hins vegar á að langan tíma hefði tekið að finna svæði fyrir íþróttagreinarnar í Fjarðabyggð. Erfitt væri að finna svæði undir þær í sveitarfélaginu.

Talsmenn sveitarfélagsins sögðu að eftir athugasemdir lóðamörkum íþróttasvæðanna verið breytt. Gerðar hefðu verið kannanir á hljóðvist og niðurstöður hennar þær að áhrif svæðanna í þéttbýli væru „ásættanleg.“

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, sagðist taka undir að þróa hefði mátt frekari mótvægisaðgerðir á svæðunum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.