Reyna að snúa við neikvæðri íbúaþróun: Breiðdalshreppur auglýsir eftir fólki
„Ertu til í að breyta til?“ er fyrirsögn auglýsingar sem Breiðdalshreppur birti í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Þar er auglýst eftir fólki með „kjarki og þor“ sem hafi áhuga á að flytja í sveitarfélagið. Sveitarstjórinn segir menn hafa ákveðið að reyna nýjar leiðir til að laða að fólk í Breiðdalinn.
„Hugmyndin eða fyrirmyndin er sótt í auglýsingar sem sveitarfélög í Noregi hafa verið að birta undanfarið, þar sem þau eru að sækjast eftir íslensku starfsfólki og þá gjarnan talið upp fullt af störfum sem laus eru!“ segir Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps aðspurður um það hvernig hugmyndin að auglýsingunni hafi orðið til.
„Það var til þess að það var nefnt hér í byggðarlaginu að þetta væri svipað hér hjá okkur. Hingað vantaði einmitt álíka fjölbreytnileika af störfum og fólki, og kannski ættum við bara að prufa að auglýsa eftir því, - þó svo að störfin væru ekki tryggð af okkar hendi! En jafnframt vitum við að það er fullt af störfum sem hægt er að sinna hvar sem er, eru óháð búsetu.“
Í auglýsingunni eru talin upp fjöldamörg störf. Áhersla er lögð á fjölskylduvænt samfélag og fallega náttúru og bent á að húsnæðisverð sé hagstætt, nóg af lausum lóðum og flest aðstaða til staðar.
Úr 300 íbúum í 180
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru íbúar í hreppnum 189 í lok síðasta árs. Það ár fækkaði þeim nokkuð snarpt eftir jákvæða þróun árin á undan. Árið 1997 voru þeir hins vegar 300 og hefur því fækkað um rúman þriðjung á sama tíma og íbúaþróun á Austurlandi hefur í heild verið jákvæð.
„Ástæðan er náttúrlega sú neikvæða íbúaþróun sem verið hefur hjá okkur á liðnum árum. Og það sem við höfum verið að gera fram til þessa hefur greinilega ekki verið að virka. Þar af leiðandi þurfum við kannski að hugsa verkefnið á annan hátt. Auglýsingin er kannski fyrsta skrefið í þá átt?“ segir Páll.
Þegar komnar fyrirspurnir
Hann leggur áherslu á að innviðir sveitarfélagsins séu sterkir, uppbygging hafi orðið í ferðaþjónustu en fleira fólk vanti og sterkari grunn. „Dalurinn er breiður og fagur og því nóg pláss hér fyrir fólk og hugmyndir. Og kannski erum við ekki nógu dugleg að láta vita af því, og öðrum þeim kostum sem byggðarlagið hefur upp á að bjóða.“
Hann er vongóður um árangur af auglýsingunni. „Það eru nú þegar komnar nokkrar fyrirspurnir og póstar. Þannig hver veit!“