Reyna að hindra landbrot í Kringilsárrana

Landsvirkjun hefur gripið til aðgerða til að hindra landbrot Hálslóns í Kringilsárrana sem víða nær orðið inn fyrir mörk friðlandsins. Sérfræðingar hafa lýst áhyggjum af vaxandi landbroti.

Framkvæmdum er nýlokið við bakkavörn á bakkavörn við norðurenda Kringilsárrana. Landbrot á svæðinu er vaktað í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun friðlandsins. Í vöktun á því hefur komið í ljós umtalsvert aukið landbrot. Þess vegna var í nóvember ákveðið að ráðast í gerð 180 metra bakkavarnar til tilraunar.

Við tilurð Hálslóns voru mörk friðlandsins færð þannig þau miðuðust við áætlaða strandlínu lónsins þar sem það liggur að svæðinu. Síðan hefur verið fylgst með svæðinu.

Í skýrslu Landgræðslunnar, sem vaktar svæðið fyrir Landsvirkjun, um landbrot í Kringilsárrana frá fyrra segir að landbrot sé víða mikið og það á köflum komið inn fyrir mörk friðlandsins. Mikið vatn í lóninu og veðurfar haustið 2017 jók mjög hættuna á landbroti.

Mælingarnar í fyrra sýndu að landbrotið hefði síst minnkað þar sem það hefði verið verst. Það jókst töluvert nyrst á norðurodda ranans sem og á austurbakka hans. Landbrot milli Hrauka og í Krika hafði aukist til muna, eins og óttast hafði verið.

Starfsmenn Landgræðslunnar fóru inn að Hálslóni í síðustu viku til að skoða aðstæður þar. Ekki er búið að vinna úr þeim gögnum sem safnað var og því ekki annað ljóst eftir ferðina en að landbrotið hefði aukist á sumum stöðum en minnkað á öðrum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun verður árangurinn af bakkavörnunum sem nú hafa verið settar upp skoðaðar næsta sumar og í framhaldinu metið hvort byggðar verði upp svipaðar varnir á fleiri stöðum þar sem Hálslón liggur við Kringilsárrana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar