Reynslan sýnir að samgöngubann myndi litlu skila

Sóttvarnalæknir segir að samgöngubann myndi ekki skila öðrum árangri en fresta tímabundið faraldri. Vandinn myndi koma síðar.

Þetta kom fram á fréttamannafundi Almannavarna um útbreiðslu covid-19 veirunnar í dag. Í gærkvöldi skýrðu almannavarnir á Austurlandi frá því að rætt hefði verið við sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra um möguleikann á samgöngubanni milli landshluta, en Austurland var þá eini landshlutinn þar sem veiran hafði ekki greinst.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á fundinum í dag að fyrirspurnir hefðu borist um samgöngubann en hann ítrekaði það sem hann hefði oft sagt áður að það myndi að líkindum skila mjög litlu.

„Reynslan og fræðin sýna það. Í mesta lagi er hægt að fresta faraldri um vikur eða daga ef beitt er mjög hörðum aðgerðum, 99% lokunum.

Vandinn kemur þegar opnað er aftur. Ef veiran er ekki útdauð, þá kemur faraldurinn á þetta svæði. Það er ekki samgöngubann á teikniborðinu,“ sagði hann.

Eitt af því sem hefur áhrif á samgöngubannið er að allsendis óvíst er hve lengi það þyrfti að standa. Aðspurður sagði Þórólfur að reiknað væri með hátindi faraldursins um miðjan maí. Faraldurinn geti síðan teygst inn í maí, jafnvel lengur.

Alma Möller, landlæknir, sagði að nú hefði veiran greinst í öllum heilbrigðisumdæmum. Unnið væri að skipulagningu þjónustu í samráði við Landsspítalann sem yrði bakvörður og ráðgefandi fyrir landið allt.

Þeir sem hafa einkenni sem líkjast flensu, svo sem hita og beinverki, er bent á að hafa samband í síma 470-3066 á dagvinnutíma en 1700 utan hans. Hjúkrunarfólk ræðir við viðkomandi og metur hvort ástæða sé til sýnatöku. Vegna skorts á sýnatökupinnum hefur þurft að forgangsraða sýnatökum á landsvísu. Von er á fleiri pinnum innan skamms. „Við vonumst til að geta gefið í,“ sagði Þórólfur.

Á fundinum í dag var fólk minnt á að taka þátt í hinum samfélagslegu aðgerðum sem í gangi eru, virða fjarlægðar takmörk, huga að hreinlæti og svo framvegis. Minnt var á að aðgerðirnar reyni á en eigi að vera þess virði. „Það er áskorun fyrir okkur að halda þeim áfram og halda þær út. Ef það gengur þá á okkur að takast vel til,“ sagði Þórólfur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.