Reynt að komast í veg fyrir mislingasmit
Mikið álag er á starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) sem reynir að hindra útbreiðslu mislingasmits. Forstjóri stofnunarinnar segir íbúa skilningsríka og að starfsfólk hafi staðið sig vel síðustu daga.„Það hefur nánast verið stanslaust hringt síðustu daga og fólk hefur þurft að bíða þótt við séum með 3-5 starfsmenn við að svara símanum. Almennt hefur fólk sýnt þolinmæði og skilning.
Við teljum okkur algjörlega í stakk búin til að takast á við þetta verkefnið. Viðbragðið hefur verið gott og starfsfólk staðið sig afburða vel.“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
Bólusett á Eskifirði og Egilsstöðum í kvöld og á morgun
Mislingasmit barst austur með farþega sem kom til Egilsstaða með áætlunarflugi föstudaginn 15. febrúar. Síðan hafa þrjú smit verið staðfest á landsvísu og grunur er um það fjórða.
Tilfellin eru annars vegar á höfuðborgarsvæðinu, hins vegar á Austurlandi. Sóttvarnalæknir gaf í morgun út tilmæli um víðtæka bólusetningu á báðum svæðum til að hindra útbreiðslu veirunnar.
Kassar með bóluefni komu austur með flugi í morgun. Á Egilsstöðum verður bólusett í húsnæði framkvæmdastjórnar að Lagarási 22, gegnt heilsugæslunni. Heilsugæslunni á Eskifirði var lokað í morgun en hún verður miðstöð bólusetningar í Fjarðabyggð.
Tilmælin eru þau að óbólusettir komi fyrir klukkan átta í kvöld, en þeir sem eru óbólusettir og kunna að vera útsettir fyrir smiti eftir að hafa umgengist sýkta einstaklinga eru beðnir um að koma milli 20:00 og 21:00. Á morgun er opið 10-15 fyrir almenning og 15-16 fyrir þá sem teljast útsettir.
Fólk í leit að eigin upplýsingum
Bólusetningin nær til fólks fætt eftir 1970, allt niður í sex mánaða gamalt. Frá 2002 hefur öll bólusetning verið skráð rafrænt og hægt er að nálgast upplýsingar í gegnum heilsuvera.is. Fyrir þann tíma var bólusetningin skráð í pappír, þar með talið á bólusetningarskírteini sem fólk hafði með sér.
„Bróðurparturinn af símtölunum sem við höfum fengið er fólk að spyrja hvort það sé bólusett. Það er allur gangur á hvort fólk viti um skírteinin sín. Á þessari stundu förum við ekki í skjöl einstaklinga því við höfum ekki bolmagn til þess.
Ef þú veist ekki um bólusetninguna er betra að þú komir. Almennar bólusetningar gegn mislingum hófust árið 1976 og fólk fætt eftir það er að líkindum bólusett, hvort sem það fékk eina sprautu eða tvær.“
Guðjón segir mislingasmitið nú minna fólk á mikilvægi bólusetninga. „Það er gott að fólk velti fyrir sér fyrir hverju það er bólusett. Við verðumst um allt og fáum fólk til okkar víða að, án þess að spá mikið í fyrir hverju við séum bólusett.“