Þórhallur Þorsteins: Mér var hótað lífláti fyrir að mótmæla virkjuninni
Þórhallur Þorsteinsson, formaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs til margra ára, segist hafa sætt margs konar árásum fyrir andstöðu sína gegn Eyjabakka- og Kárahnjúkavirkjunum á sínum tíma. Vináttubönd hafi slitnað og reynt verið að hrekja hann úr starfi. Að lokum sé niðurstaðan sú að miklu hafi verið fórnað fyrir takmarkaðan ágóða.
„Mér var hótað lífláti. Maður sem ég hafði unnið með mætti mér úti á götu og sagði að það ætti bara að skjóta mig. Auðvitað var sárt að mæta þessu, það var sárt því það var verið að reyna að kúga mig. Persónugera málið þannig að ég væri að hafa eitthvað af fólki, koma í veg fyrir að fólkið hér lifði eðlilegu lífi. Það var viðhorfið,“ segir Þórhallur í viðtali við DV í dag.
„Menn sem voru að öndverðum meiði miðað við það sem almennt gekk voru kúgaðir. „Dæmið var sett upp með þeim hætti að Austfirðingar stæðu saman. Við hinir sem vorum andvígir þessum aðgerðum vorum ekki sannir Austfirðingar. Og við vorum alls ekki góðir borgarar. Við vorum svikarar í huga fólksins.
Við vorum bara fólkið sem vildi að aðrir færu aftur í torfkofana eins og sagt var. Við vorum sagðir á móti framförum, á móti því að skapa börnunum framtíð, þetta dundi á manni, að börnin kæmu ekki aftur heim eftir nám, að þau fengju ekki vinnu. Í huga þessa fólks var ég að taka lífsviðurværið af börnunum þeirra með andstöðunni, koma í veg fyrir atvinnusköpun og lækka verð á húsnæði hér fyrir austan. Þetta fékk ég allt að heyra. Svona var þetta.“
Pólitíkusar á Austurlandi reyndu ítrekað að láta reka mig úr vinnu
Þórhallur var framarlega í hópi þeirra Austfirðinga sem mótmæltu virkjununum á sínum tíma og hlaut sekt fyrir að hindra för stjórnar Landsvirkjunar upp á Fljótsdalsheiði. Það gerði hann í frítíma sínum en hann segir að áhrifamenn á Austurlandi hafi reynt að nýta það tækifæri til að hrekja hann úr vinnunni.
„Pólitíkusar á Austurlandi reyndu ítrekað að láta reka mig úr vinnu. Það var hringt í rafmagnsveitustjóra ríkisins, rafveitustjórann hér og þess var krafist að ég yrði rekinn úr vinnunni vegna þess sem ég gerði í mínum frítíma.
Stjórnarformaður Rarik fékk ekki frið fyrir þessum mönnum. Og ég þurfti að standa fyrir máli mínu, ég var kallaður inn til rafmangsveitustjórans hér og þurfti að sanna það fyrir honum að ég hefði verið í fríi, mín orð nægðu ekki og ég þurfti að kalla verkstjórann til sem gaf mér frí. Það var allt reynt. Þetta var harka.
Og þegar ég fékk þau skilaboð að áhrifamenn á Austurlandi, virtir borgarar í sínu samfélagi, væru að reyna að klekkja á mér og hrekja mig úr vinnu vegna skoðana minna fékk ég mjög einkennilega tilfinningu fyrir því hvernig samfélagi ég bý í.“
Aðkomumótmælendur mótmæltu því sem heimamenn gátu ekki mótmælt
Þórhallur aðstoðaði síðan meðlimi í Saving Iceland samtökunum sem slógu upp mótmælabúðum við Snæfell til að mótmæla framkvæmdunum við Kárahnjúka.
„Ég studdi þetta fólk því það var að vinna starf sem við gátum ekki unnið, heimamenn. Þau voru að andmæla því sem fáir treystu sér til að andmæla hér fyrir austan vegna þess að framkoma við þá fáu sem þorðu því var þess eðlis,“ segir Þórhallur. Hann áréttar þó að að á Héraði hafi verið stofnað félag um verndun hálendis á Austurlandi töluverður áður en Kárahnjúkar komust í almenna umræðu.
Þórhallur segir mótmælabúðirnar hafa farið í skapið á ýmsum. Ferðafélagið hefur byggt upp svæðið við Snæfell en ýmsir beittu þrýstingi til að reyna að reyna að fá fólkinu vísað burtu og búðunum lokað. Andsvarið hafi alltaf verið hið sama, ekki væri hægt að flokka inn á opinbert tjaldstæði. Þá hafi hann fylgst með framgangi lögreglu gagnvart mótmælendum.
„Ég varð líka vitni að framferði lögreglu sem var að eltast við mótmælendur inni á hálendi sem varð til þess að ég velti því fyrir mér hvort ég byggi í lögregluríki. Reynt var að taka hvíld af fólki með því að setja sírenu á um miðjar nætur, það var stöðugt verið að keyra fram hjá þeim og í kringum bíla þeirra, taka flassmyndir í rökkri og loka vegum þannig að ekki var hægt að færa þeim vistir. Ég sá þetta gerast.“
Þórhalli finnst miklu hafa verið fórnað og lítið hafa áunnist við framkvæmdirnar. „Fórnin inn frá, umhverfisáhrifin af þessum framkvæmdum, er þannig að það er ekki hægt að réttlæta það sem þarna var gert.“
Eftir birtingu fréttarinnar barst Agl.is tölvupóstur frá DV með beiðni um að taka fréttina þar sem birtur væri meginþorri viðtalsins úr blaði sem enn væri í sölu. Agl.is stendur við rétt sinn til að birta tilvitnanir í viðtalið en hefur stytt fréttina til að koma til móts við sjónarmið DV. Agl.is hafnar því að birtur hafi verið meirihluti viðtalsins. Það má lesa í heild sinni í DV sem út kom mánudaginn 21. maí 2012.
Eftir birtingu fréttarinnar barst Agl.is tölvupóstur frá DV með beiðni um að taka fréttina þar sem birtur væri meginþorri viðtalsins úr blaði sem enn væri í sölu. Agl.is stendur við rétt sinn til að birta tilvitnanir í viðtalið en hefur stytt fréttina til að koma til móts við sjónarmið DV. Agl.is hafnar því að birtur hafi verið meirihluti viðtalsins. Það má lesa í heild sinni í DV sem út kom mánudaginn 21. maí 2012.