Ráðherra bjartsýnn á olíuvinnslu á Drekasvæðinu
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segist bjartsýn á að olíuvinnsla Íslendinga á Drekasvæðinu verði að veruleika. Annað útboð olíuleitar á Drekasvæðinu hefst 1. ágúst á næsta ári og stendur í fjóra mánuði. Ákvörðun Norðmanna um að friðlýsa Jan Mayen kann að opna svæðum á Norðausturlandi möguleika á að þjónusta leit á norska hluta Drekasvæðisins.
„Ég er bjartsýn fyrir hönd framtíðar olíuvinnslu Íslendinga tengda Drekasvæðinu og held að hún verði að veruleika, jafnvel í okkar tíð sem sitjum á Alþingi sem stjórnmálamanna,“ sagði Katrín í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Hún sagði að verið væri að fara yfir þau lög sem drógu úr áhuga leitaraðila í fyrra útboðinu í fyrra og hefði trú á að áhugi þeirra færi að glæðast á ný. Samstarf hefur verið við Norðmenn um undirbúning leitar og rannsóknir á svæðinu. Hvor aðili á rétt á 25% nýtingarrétt í lögsögu hins við Jan Mayen.
Katrín sagði Norðmenn hafa haldið áfram djúpborunum eftir olíuslysið mikla á Mexíkóflóa í vor en líklegt sé að það leiði til endurskoðunar á lögum um olíuborun á hafsbotni um heim allan. Hún hafnaði því að Norðmenn væru komnir framúr Íslendingum í undirbúningi olíuvinnslu á svæðinu.
Birkir Jón Jónsson, málshefjandi, spurði út í möguleika byggða á Norðausturlandi til að þjónusta leit á norska hluta Drekasvæðisins þar sem Norðmenn hafa ákveðið að friðlýsa Jan Mayen. Hann sagði mikla „hagmuni og tækifæri felast í því þótt við finnum ekki olíuauðlind á Drekasvæðinu.“