Ráðherra og vegamálastjóri á ferð um Austfirði
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, sátu þrjá fundi um samgöngumál á Austurlandi í síðustu viku.
Í frétt af vef ráðuneytisins segir að Ögmundur fundað með samgöngunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þar sem því hafi verið fagnað að byrja eigi á Norðfjarðargöngum á næsta ári. Nefndarmenn hafi bent á að nauðsynlegt væri að byrja rannsóknir fyrir Fjarðarheiðar-, Lónsheiðar- og Vopnafjarðargöng.
Heilsársvegur yfir Öxi er það sem nefndin áleit „brýnasta verkefnið í vegagerð á Austurlandi.“ Farið var yfir flugmál, Egilsstaðavöllur verði stækkaður til að geta tekið á móti millilandaflugi, áætlunarflug til Vopnafjarðar verði áfram tryggt, Norðfjarðarvöllur malbikaður og Reykjavíkurflugvöllur fari ekki neitt.
Ráðherrann og föruneyti fundaði einnig sérstaklega með sveitarstjórnarmönnum á Seyðisfirði og Djúpavogi. Seyðfirðingar lögðu áherslu á Fjarðarheiðargöng sem myndu efla tengingu þeirra við nágrannana, styrkja íbúaþróun og bæta ferðaþjónustu í tenglsum við siglingar Norrænu. Á Djúpavogi voru ítrekaðar óskir um Axarveg.
Austfirskir sveitarstjórnarmenn koma saman um næstu helgi á fundi SSA á Borgarfirði. Samgöngumál fjórðungsins verða þar rædd. Norðfjarðargöng virðast vera komin á dagskrá strax á næsta ári. Við gæti tekið baráttan um hver verði næsta stóra vegaframkvæmd í fjórðungnum.