Ríkið tapaði þjóðlendumálum í Fljótsdal

Óbyggðanefnd hefur hafnað kröfum ríkisins um að hluti jarðanna Valþjófsstaðar og Skriðuklausturs í Fljótsdal verði skilgreindar sem þjóðlendur. Nefndin taldi enga ástæðu til að efast um annað en svæðin sem ríkið ásældist væru eignarlönd.

Óbyggðanefnd úrskurðaði upphaflega um þjóðlendukröfur gagnvart jörðunum árið 2005 sem síðan var staðfest með Hæstaréttardómi fimm árum síðar. Þá voru afréttarlöndin, Undir Fellum og Rani, úrskurðaðar þjóðlendur. Landeigendur mótmæltu kröfunum nú á þeim forsendum að búið væri að úrskurða um svæðið.

Ríkið hefur rétt til að gera nýjar kröfur þegar nýjar heimildir líta dagsins ljós. Að þessu sinni var lögum breytt árið 2020 þannig hægt var að gera nýjar kröfur á svæðum þar sem athugasemdum hafði verið lýst í eldra ferli. Nýja krafan gekk út á að svæði úr löndum jarðanna tveggja, sem í grófum dráttum nær frá fjallsbrún og norður í Fljótsdalsheiði, teldist þjóðlenda.

Málið varð snúið þegar Óbyggðanefnd öll og starfsmenn hennar voru úrskurðuð vanhæf vegna aðkomu að lagasetningunni og eldri úrskurðum. Sérstök Óbyggðanefnd var skipuð í kjölfarið til að úrskurða í málinu.

Svæðið sem um ræðir er að mestu í 500-620 metra hæð og allvel gróið. Ríkið hélt því meðal annars fram að takmarkaðar heimildir væri um nýtingu jarðanna á þessu landi og því hefði vart stofnast til eignaréttar.

Í úrskurði Óbyggðanefndar segir þó meðal annars að allt svæðið sé innan landamerkjabréfa jarðanna. Þetta séu ekki afréttur, eins og í eldri úrskurðinum, og ekkert sem bendi til þess að afréttarlöndin tvö nái austar en áður hafi verið úrskurðað. Óbyggðanefnd vísar meðal annars til gróðurfarsins þegar hún kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til annars en að um eignalönd sé að ræða.

Málskostnaður upp á þrjár milljónir er felldur á ríkið. Jón Jónsson, lögmaður hjá Sókn á Egilsstöðum, rak málið fyrir hönd Valþjófsstaðar sem er kirkjujörð en Skriðuklaustur er ríkisjörð.


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar