Ríkisstjórnin fundar á Austurlandi

Ríkisstjórn Íslands fundar á Austurlandi í dag. Fundað verður með sveitarfélögunum á svæðin um hagsmunamál þeirra en á borði ríkisstjórnarinnar sjálfrar er meðal annars ákvörðun um hvalveiðar.

Ríkisstjórnarfundur var fyrst haldinn á Austurlandi vorið 2012, þá í tengslum við stofnun Austurbrúar.

Síðan hefur komist á hefð fyrir sumarfundum ríkisstjórnarinnar, sem í senn eru formlegir fundir ríkisstjórnarinnar en fylgt eftir með óformlegum vinnufundum. Þetta er sjötti sumarfundurinn, í fyrra var fundað á Vestfjörðum en áður hefur verið fundar í Snæfellsbæ, Mývatnssveit, á Hellu og Suðurnesjum.

Ríkisstjórnin kom einnig saman til skyndifundar á Egilsstöðum í júlí 2021 til að ákveða hertar sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-faraldursins. Egilsstaðir voru valdir sem fundarstaður þar sem margir ráðherrar tóku sumarfrí sín eystra í fádæma veðurblíðu.

Hvað er á dagskránni?


Dagurinn hefst á formlegum ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu verður að auki sest niður með fulltrúum sveitarfélaganna fjögurra á Austurlandi auk Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrú og rædd hagsmunamál þeirra. Klukkan 11:40 verður athöfn við Hótel Berayja í tilefni þess að 800 rampar hafa verið settir upp í átakinu Römpum upp Ísland. Formenn allra stjórnarflokkanna taka þar þátt. Eftir hádegi verður óformlegur vinnufundur ríkisstjórnarinnar.

Listi yfir þau málefni sem rædd verða á fundinum liggur ekki fyrir en staðfest hefur verið að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, muni kynna ákvörðun sína hvort hvalveiðar verði leyfðar á fundinum. Hún kynnti niðurstöður vinnu starfshópa um sjávarútveg á ríkisstjórnarfundi í fyrradag.

Af öðrum málefnum á þeim fundi má nefna að forsætisráðherra ræddi dagskrá í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins á næsta ári og menningar- og viðskiptaráðherra kynnti skýrslu starfshóps um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna. Á ríkisstjórnarfundi á föstudag fór fjármála- og efnahagsráðherra yfir stöðu efnahagsmála en hann kynnti í framhaldinu áætlanir um hagræðinu hjá ríkinu. Á sama fundi kynnti innviðaráðherra væntanlega samgönguáætlun.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sumir lengt ferðina austur og nýtt hana í fleira en fundinn. Í gær opnaði Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, Vjelsmiðjuna á Seyðisfirði á ný og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, opnaði vinnufund um útflutningstækifæri á Egilsstöðum.

Hlúa að stjórnarsamstarfinu


Talsverð athygli hefur verið á fundinum á Egilsstöðum vegna væntanlegrar ákvörðunar Svandísar en tímabundin frestun hennar á stórhvalaveiðum rennur út eftir daginn í dag. Ákvörðun hennar um bannið í byrjun sumars var afar umdeild og hefur einkum verið sýnilegur óróleiki innan Sjálfstæðisflokksins vegna hennar.

Lilja blés á þessa erfiðleika þegar hún opnaði Vjelsmiðjuna í gær. „Sumir hafa verið með skýringar um að þetta sé eins og erfitt hjónaband. Við erum mjög hamingjusöm og erum að hlúa að hjónabandinu með að fljúga hingað austur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar