Rjúpnaveiðar teljast ekki til brýnna erinda
Regla um tveggja metra fjarlægð milli óskyldra aðila mun einnig gilda fyrir landsbyggðina frá og með næsta þriðjudegi. Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands varar áfram við ferðum milli landshluta og beinir nú viðvörunum sínum sérstaklega til rjúpnaskytta.Heilbrigðisráðherra hefur opinberað minnisblað sóttvarnalæknis um tillögur að áframhaldandi aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19 faraldursins, eftir að núverandi takmarkanir renna út á mánudag.
Nokkrar breytingar eru í nýju tilmælunum, sem reikna má með að endanlega verði staðfestar af ráðherra á morgun.
Tveggja metra reglan
Helstu breytingar sem snúa að svæðum utan landsbyggðarinnar eru að nándarmörk milli einstaklinga verða nú tveir metrar í stað eins metra í dag. Skylt er að nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægð, meðal annars í verslunum.
Á viðburðum er aðeins heimilt að hafa 20 gesti í hólfi í hverju rými og skuli þeir sitja í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn. Íþróttaiðkun, einnig sú sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar, er leyfð en engir áhorfendur mega vera á íþróttaviðburðum, hvorki innan- né utandyra. Líkamsræktar stöðvar verða áfram lokaðar.
Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar standi í 2-3 vikur en til greina kemur að endurskoða þær ef áhættumat breytist.
Aðgerðastjórnin bendir á í tilkynningu sinni að þessar tilskipanir sýni að ástandið teljist áfram erfitt og alvarlegt. Því mikilvægt að allir sinni persónulegum smitvörnum, virði fjarlægð, noti grímu og gæti að handþvotti og sprittnotkun.
Vara við ferðum rjúpnaskytta
Í tilkynningunni kemur fram að aðgerðastjórnin hafi orðið þess áskynja að rjúpnaveiðimenn hyggist koma austur þegar veiðitímabilið hefst 1. nóvember. Aðgerðastjórnin bendir á tilmæli stjórnvalda um að ferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu verði ekki farnar nema af brýnni nauðsyn. „Veiðiferðir sem þessar falla ekki þar undir,“ segir í tilkynningunni þar sem veiðimenn eru hvattir, miðað við óbreytt ástand, til að „taka ekki þá áhættu að fara milli landsvæða í þessum tilgangi.“
Enginn er skráður með Covid-19 smit á Austurlandi en fjórir í sóttkví samkvæmt tölum af Covid.is. „Höldum áfram að gæta að okkur og gerum það saman.“
Mynd: Umhverfisstofnun