Ríkið keypti Teigarhorn: Brýnt að varðveita verðmætar minjar
Ríkissjóður Íslands hefur að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra keypt jörðina Teigarhorn í Djúpavogshreppi. Á jörðinni eru mikilvægar menningar- og náttúruminjar, þar á meðal jarðminjar sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Mikil áhersla er lögð á samstarf við heimamenn um framtíðarskipulag á jörðinni.
Ríkið greiddi fimmtíu milljónir króna. Jörðin er óðalsjörð og hafði verið til sölu um árabil. Um slíkar jarðir gilda sérstakar reglur en óðalsböndin gerðu söluna erfiða að sögn talsmanns fjármálaráðuneytisins.
Hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fengust þær upplýsingar um að á jörðinni væru ómetanlegar náttúru- og menningarminjar sem sumar hefðu alþjóðlegt verndargildi og því brýnt að varðveita. „Þá má nefna áhuga heimamanna á því að jörðin kæmist í opinbera eigu en þeir hafa sýnt mikið frumkvæði í náttúruverndarmálum.“
Einn þekktasti fundarstaður geislasteina í heiminum
Teigarhorn er um 2000 hektarar að stærð en á jörðinni er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeolita) í heiminum. Vegna þessa var hluti jarðarinnar friðlýstur sem náttúruvætti árið 1975. Búlandstindur er meðal þeirra náttúruminja sem tilheyra jörðinni.
Teigarhorn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sögu og skráningu veðurfars hér á landi. Þar hafa verið stundaðar veðurfarsathuganir síðan 1881 og mælingar á hitafari frá 1873. Þá þykir hús Weyvadts kaupmanns á Teigarhorni meðal mikilvægra menningarminja en það var byggt á árunum 1880–1882.
Vinna að hefjast við framtíðarskipulag
Gert er ráð fyrir að ríkið taki formlega við jörðinni 15. apríl. Vinna er hins vegar hafin við framtíðarskipulag og umsjón á svæðinu.
„Menn eru rétt að taka fyrstu skrefin hvað þetta varðar. Nú er að hefjast vinna við að móta þessar hugmyndir og að henni munu koma ýmsir aðilar. Fyrir utan umhverfis- og auðlindaráðuneytið verður fjármálaráðuneytið með í samráði sem og Umhverfisstofnun og svo auðvitað heimamenn en miklu varðar að tryggja gott samstarf við þá.
Enn sem komið er er þetta þó enn að mótast og of snemmt að segja til um útkomuna,“ segir í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar um framtíðarskipulagið.