Ríkisendurskoðun: Ráðuneytið þarf að styðja HSA betur í erfiðum ákvörðun

hsalogo.gif
Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið verði að standa þéttar að baki ákvörðununum yfirstjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands eigi að takast að halda rekstrinum innan þess ramma sem markaður er á fjárlögum. Gera verði langtímaáætlanir og taka erfiðar ákvarðanir frekar en beita skyndilausnum á borð við aukafjárveitingar.

„Mikla festu þarf því til að þess að nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir gangi eftir og miða við stöðuna í lok maí 2012 verður enn að herða tökin. Ljóst er að það getur þýtt skerta þjónustu,“ segir í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur HSA .

Yfirdráttur dýr og óskynsamleg leið

Skýrslan nú er eftirfylgni á úttekt sem gerð var á rekstrinum fyrir þremur árum. Kastljósinu er sérstaklega beint að vanda síðasta árs þegar 113 milljóna tap varð á rekstrinum. Stjórnendur HSA brugðust við erfiðri lausafjárstöðu með því að taka yfirdráttarlán, nokkuð sem er óheimilt.

Í svari HSA er því haldið fram að ekki hafi verið annarra kosta völ til að halda rekstrinum gangandi. „HSA fékk vilyrði velferðarráðuneytisins fyrir lausn á uppsöfnuðum halla í upphafi árs til þess að létta lausafjárstöðuna. Illa hefur gengið að koma þessu í gegnum kerfið þrátt fyrir endurteknar beiðnir HSA,“ segir í athugasemdum HSA.

Þar sem ráðuneytið hafi ekki getað útvegað lausafé hafi yfirdrátturinn verið tekinn með óbragð í munni. „Þetta er að mati stofnunarinnar dýr og óskynsamleg leið. Því er forstjóri persónulega gerður að blóraböggli fyrir aðstæðum sem hann hefur ekki vald yfir.“

Hætt við óvinsælar sparnaðaraðgerðir

Ýmsar ástæður eru gefnar fyrir tapinu. HSA ætlaði að 27 starfsmenn myndu hætta störfum árið 2011. Aukið álag á það starfsfólk sem verða átti eftir fór illa með það. Stofnunin bendir á að „Með fækkun starfa hafi veikindatíðni og fjarverur starfsmanna aukist og launakostnaður hækkað að sama sakapi.“

Fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir hafa líka reynst svo óvinsælar að bakkað hefur verið með þær. Ríkisendurskoðun bendir á að „ekki hafi verið eining um aðhaldsaðgerðir og sumarlokanir starfsstöðva. Vegna mótmæla heimamanna hafi verið ákveðið að draga úr áhrifum niðurskurðar, m.a. með því að hverfa frá áformuðum lokunum.“

Sérstaklega er minnst á dvalarheimilið Sundabúð á Vopnafirði sem til stóð að loka. Við það var hætt og er til skoðunar að færa reksturinn til Vopnfjarðarhrepps, þótt það sé ekki enn frágengið. Um þetta segir Ríkisendurskoðun að HSA hafi verið „gert að halda áfram“ rekstrinum „með óbreyttum fjárframlögum sem þýddi aukna sparnaðarkröfu upp á 38,5 milljónir króna.“

Ríkisendurskoðun beinir þeim tilmælum til velferðarráðuneytisins að „taka ríkari þátt í að ákveða hvaða þjónustu stofnunin veitir og standa betur að baki henni þegar takast þarf á við erfiðar ákvarðanir í þeim efnum.“

Óviðunandi rekstrarárangur

Í skýrslunni segir að HSA hafi „ekki skilað viðunandi rekstrarárangri hin síðari ár.“ Bæði framlög úr ríkissjóði og sértekjur hafa minnkað frá árinu 2008. Heildargjöld hafa á sama tíma nánast staðið í stað en jukust síðan í fyrra. Gert er ráð fyrir að reksturinn í ár verði á núlli en engar skuldir greiddar upp.

Tekið er fram að HSA hafi brugðist við flestum þeim tilmælum sem til stofnunarinnar var beint eftir fyrri úttekt. Ítrekað er að vanda betur til við skýrslugerð og gera stefnumótandi áætlanir til langs tíma. Til velferðarráðuneytisins er beint þeim tilmælum að fylgjast betur með framkvæmd fjárlaga.

Rekstrarvandi heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verulegt áhyggjuefni

Ríkisendurskoðun viðurkennir að rekstur HSA sé „landfræðilega erfiður“ og bendir á að fleiri heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eigi í rekstrarvanda.

„Það er verulegt áhyggjuefni hversu illa heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur gengið að halda rekstri sínum innan þess ramma sem Alþingi setur þeim í fjárlögum og að velferðarráðuneyti skuli ekki bregðast við því með skýrari hætti en raun ber vitni.“

Heimild til að loka litlum starfsstöðvum

Í tilfelli HSA ætti að vera löngu ljóst að skyndireddingarnar skila engum árangri. „Óeðlilegt er að enn einu sinni verði gripið til skammtímalausna á borð við aukafjárveitingu.“

Og úrræðin eru kunnugleg. Velferðarráðuneytið bendir á að HSA „hafi t.d. heimild til að loka litlum starfsstöðvum og á öðrum starfsstöðvum hennar sé enn ofmönnun.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.