Árni Gunnarsson: Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar verður ekki nógu mikið ítrekað
Ásókn í innlandsflug hrynur verði miðstöð farþegaflugsins flutt úr Vatnsmýrinni í Reykjavík. Starfsemin þar hefur löngu sprengt af sér núverandi flugstöð en dráttur hefur orðið á úrbótum.
„Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar verður ekki undirstrikað nógu mikið. Það er ekki raunhæft að ætla að búa til annan flugvöll í nágrenni Reykjavíkur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar getur ekki annast innanlandsflugið líka,“ sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, á málþingi um framtíð innanlandsflugs á Egilsstöðum í fyrradag.
Farþegum fækkaði verulega eftir hrunið 2007 en frá árinu 2010 hefur þeim fjölgað á ný um 3% á ári. Flutningur til Keflavíkur myndi á ný gera út af við farþegafjöldann. „80% farþega myndu fljúga minna,“ fullyrti Árni.
Kannanir Flugfélagsins benda til þess að staðsetning flugvallar hafi mikil áhrif. Um 49% ferðist á eigin vegum, 40% á vegum fyrirtækja. Flestir, 36% er á leið í frí en 22% í viðskiptaerindum. Aðalerindi flestra þeirra sem koma til Reykjavíkur er á svæðið vestan Kringlumýrarbrautar.
Árni hefur áhyggjur af aðstöðumálum flugsins í Reykjavík. „Miðað við núverandi vöxt er flugstöðin orðin of lítil. Við viljum byggja nýja en ódýra flugstöð í Reykjavík. Það hefur lengi verið biðstaða í samgöngumálum frá og innan höfuðborgarinnar þótt í tíu ár hafi verið unnið að hugmyndum um samgöngumiðstöð,“ sagði Árni og bætti því við að flugið hefði farið „halloka“ þegar verið væri að ræða samgönguframkvæmdir og stefnu innan ráðuneytis.
Hann sagði hækkun á eldsneytisverði stærstu ástæðuna fyrir hærri flugfargjöldum. Aukin álagning hins opinbera á ýmsum þjónustuþáttum hjálpi ekki til.
„Opinber gjöld hafa þrefaldast á fjórum árum sem er mjög mikið í rekstri sem skilar ekki miklum arði. Þessi gjöld voru 207 milljónir árið 2009 en við reiknum með að þau verði 443 milljónir árið 2012.“