Róleg nótt í appelsínugulri viðvörun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. nóv 2024 10:51 • Uppfært 16. nóv 2024 10:55
Gærdagurinn og nóttin voru róleg hjá austfirskum viðbragðsaðilum, þrátt fyrir appelsínugula veðurviðvörun. Tvö verkefni komu til þeirra kasta.
Um klukkan átta í gærkvöldi óskuðu ferðamenn sem komnir voru í vanda í Breiðdal eftir aðstoð. Þeim var bjargað í skjól.
Þá flutti björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði sjúkling á móts við sjúkrabíl frá Egilsstöðum sem komst ekki alla leið vegna veðurs.
Lögreglan þakkar íbúum fyrir að hafa tekið mark á viðvörunum og vera lítið á ferðinni. Hún sinnti annars hefðbundnu eftirliti og var einn tekinn vegna gruns um ölvun við akstur í nótt.
Vetrarfærð er á vegum í fjórðungnum. Þeir eru almennt opnir nema að lokað er um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Gul viðvörun er nýfallin úr gildi á Austurlandi en hún gildir til klukkan 14:00 fyrir Austfirði.