Rúta út af í Oddsskarði í fljúgandi hálku
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. feb 2012 23:08 • Uppfært 08. jan 2016 19:22
Rúta með átta starfsmönnum á leið til álveri Alcoa fór út af veginum í Oddsskarði rétt fyrir klukkan átta í kvöld. Farþegar sluppu með minniháttar meiðsl.
Björgunarsveitirnar Brimrún á Eskifirði og Gerpir í Neskaupstað voru kallaðar út. Einn farþegi var fluttur til öryggis á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað en aðrir á heilsugæslustöðina á Eskifirði. Aðstæður voru mjög slæmar, fljúgandi hálka, úrkoma og hvassviðri.
Á Mbl.is er haft eftir Jónasi Wilhelmssyni, yfirlögregluþjóni á Eskifirði, að rútan hafi oltið hið minnsta þrjá hringi. Hann þakkar því að ekki fór verr að rútan hafi verið vel búin og fólkið í beltum. Rútan fór út af í Sandskeiði, um kílómeter fyrir ofan Eskifjörð.
Vegakaflinn frá Norðfirði til Stöðvarfjarðar um Oddsskarð var í nýlegri úttekt metinn hættulegasti vegkafli á Íslandi.