Rúmlega helmingur viðtala nemenda VA vegna vanlíðunar
Leiki vafi í hugum einhverra hve einmanaleiki og almenn vanlíðan ungmenna Austurlands er stórt vandamál gæti sú staðreynd að vel um helmingur allra nemenda Verkmenntaskóla Austurlands (VA) sem leita til ráðgjafa skólans gera slíkt vegna vanlíðunar skipt sköpum.
Andlegri líðan barna og ungmenna allt til átján ára aldurs fer hrakandi ár frá ári víða í landinu samkvæmt hinum ýmsu könnunum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir skólasamfélagsins og fjölda annarra aðila að ráða bót á vandanum. Þetta gerist gróflega á sama tíma og alþjóðlegar PISA-kannanir um færni nemenda á Íslandi í helstu kjarnafögum sýna að þekking þeirra og skilningur fer minnkandi.
Ástæður þessa liggja að hluta til ljósar fyrir og sérfræðingar margir tengja sífellt aukinni notkun net- og samfélagsmiðla í skóla og utan en sannað þykir að mikil notkun slíkra miðla hefur meðal annars í för með sér skerta athyglisgáfu, minni þolinmæði og aukna einangrun.
Mikið áhygguefni
Ein sú er þekkir vandamálið á eigin skinni er Guðný Björg Guðlaugsdóttir, náms- og starfsráðgjafi í VA, en hún var ein þeirra sem hélt erindi á fjölsóttu málþingi um geðræktarmál á Austurlandi sem Tónleikafélag Austurlands stóð fyrir í síðustu viku.
„Þessi mikli fjöldi sem sækir sér aðstoðar vegna einhvers konar vanlíðunar er auðvitað mikið áhyggjuefni,“ segir Guðný Björg, en tekur fram að mikill vilji nemenda skólans til að leita sér aðstoðar starfsfólks eða kennara ef eitthvað bjátar á sé afar jákvæð þróun á móti.
„Tölurnar síðustu ár eru svolítið svipaðar, þar sem að um helmingur viðtala [ráðgjafa skólans] virðast snúast um einhvers konar stuðning eða eru vegna vanlíðunar og eða kvíða. Mér hefur ekki fundist það vera tabú hjá nemendum að leita til mín, og oft vilja þau frekari aðstoð en þá sem ég get veitt, og vita kannski ekki hvert þau eiga að leita eða eru jafnvel þá þegar komin einhversstaðar á biðlista eða hafa ekki efni á að sækja sér sálfræðiþjónustu. Það er því vissulega jákvætt að þau leita þó til mín og þó við förum ekki í djúpa vinnu að þá get ég aðstoðað með ýmislegt þar til meiri aðstoð býðst, ef þess þarf. Stundum eru þessi mál ekki endilega þess efnis að það þurfi frekari þjónustu, heldur frekar reglulegt spjall og opnun á tilfinningar.“